Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

mánudagur, október 01, 2007

Annasöm helgi að baki

Jæja þá er stóru helginni lokið. Sveinn á skilið dugnaðarverðlaun helgarinnar því hann fór í tvær leitir og var önnur gangandi en hin hálfgangandi kom það til vegna þess að hrossið var svo latt sem hann fékk í láni að einn hraði var einungis til í orðabók þess sem var sem sagt HÆGT. Minn maður lét það ekkert á sig fá en stökk af baki og hljóp sjálfur á eftir óþekktar skjátum Borghreppinga (eða þessar óþekku voru náttúrulega úr Álftanes- og Hraunhrepp). Adam gekk víst líka vel upp í Langavatnsdal fyrir utan smá útúrdúr þegar hann, Jói á Ánabrekku og Krummi fóru villu síns vegar í þoku en fundu víst ljósið eftir svolítið þóf og komust heilir á höldnu í kofann. Hef ekki annað heyrt en að það hafi smalast ágætlega þrátt fyrir örlítin hrepparíg sem gekk á milli manna í talstöðunum (Usss þeir skildu eftir fé uppi, þessir Borghreppingar kunna ekkert að smala. Hva' bara fullt af fé hérna eiga Álft- og Hraunhreppingar ekki að vera búnir að smala hér?)

Ég hafði það gott með litlu krökkunum mínum hér heima á laugardag, við kíktum upp á Bröttubrekku og fékk ég smá að hlaupa (ekki veitir nú af að nota góðu hlaupaskóna). Keyrðum við líka meðfram veginum og fórum svo upp í Klettstíu og tókum á móti safninu sem virtist bókstaflega koma úr öllum áttum. Arndís og Palli fengu að hjálpa til við að reka inn og auðvita Binni hálffjallkóngur líka. Ég skutlaði svo öllum heim og sturtaði mig snökt og hélt svo á Bekkjarmót í Borgarnes. Það er skemmst frá því að segja (því ekki er allt prenthæft sem þar fór fram ;)) að ég skemmti mér konunglega, spilaði meira að segja örlítið á gítarinn og komst að því að ég get ekki spilað fyrir fólk, ég var svo stressuð og sá ekki nóturnar og var bara hálf kjánaleg svo ég bara hætti því og lét annan taka við söng stjórnun. Margir hafa mikið breyst og aðrir ekki neitt og var bara frábært að sjá að allir voru samt að plumma sig vel í lífinu. Fannst mér líka gott að sjá að fólk var ekkert að fara í gömlu hlutverkin frá því í grunnskóla allir voru bara þeir sjálfir, sem sagt fullorðið fólk.

Sunnudagurinn var tekin í barnafmæli hjá mér og krökkunum suður í Reykjavík en Sveinn var eins og áður sagt uppá fjöllum í smalamennsku. Binni er svo heima í dag því það er frí í skólanum og höfum við verið að bardúsa ýmislegt í morgun og vinna upp glataðan mömmu/Binna tíma.

Vona svo að allir hafi skemmt sér eins vel og ég og mínir yfir helgina.
Lifið heil