Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

föstudagur, ágúst 22, 2008

Jafnrétti kynja í sveitum landsins

Nú eru erfiðir tímar framundan hjá bændum, þá sérstaklega sauðfjárbændum. Aðfanga verð hefur hækkað gríðarlega sem dæmi kostar heyrúllan núna um 8500 kr. fljótt að teljast saman í háar fjárhæðir þegar verið er að heyja allt upp í þúsund stykki. Við sem stundum sauðfjárbúskap hugsum okkur ábyggilega flest vel um hvort eigi að draga saman seglin og fella allt fé og selja heyforðann eða hvort við reyrum sultarólina og tökum árslaunin okkar og ef við erum heppin að koma út á núlli.
Á stundum sem þessum er líka vert að skoða annan og að mínu mati ekki síðri þátt landbúnaðarins, þ.e. jafnrétti kynjanna. Ég gegni formennsku í grasrótarhreyfingu kvenna sem búa í dreifbýli og stunda búskap af einhverju tagi. Ég hef því þann starfa að kanna og vita hvernig jafnréttismálum er hagað útí dreifbýlinu. Því miður eru við landbúnaðarkonur langt, langt, langt á eftir kynsystrum okkar í þéttbýlinu. Það eru fjölmörg dæmi þess að konur stundi mikla og erfiða líkamlega vinnu á búum sínum án þess að vera á launaskrá. Þessar sömu konur eru jafnvel ekki skráðar í búnaðarfélög (sem eru stéttafélög okkar bænda og eiga öll aðild að Bændasamtökum Íslands) og í flestum tilfellum eru eignir og fyrirtækið (búskapurinn) skráður á nafn eiginmannsins.
Ég hef fengið mörg ljót dæmi inn á borð til mín. Jafnvel svo ljót að maður hélt að í nútíma þjóðfélagi ætti slíkt ekki að geta gerst, þetta væru einfaldlega mannréttindabrot af grófustu gerð. Ég nefni sem dæmi konu eina sem hafði búið með manni sínum í 8 ár. Þau byrjuðu með tvær hendur tómar á jörð foreldra hans. Þau unnu mikið og komu sér upp góðu fjárbúi, hún vann á búinu og hann vann með búskapnum og þannig var það látið ganga. Þau fundu sér ekki tíma til barneigna strax enda ung og áttu tíman fyrir sér og ekki fannst þeim heldur þörf á því að láta blessa sambandið. Þannig að þau bjuggu í óvígðri sambúð. Þau spöruðu sér annað búnaðarfélagsgjaldið og höfðu því hana ekki skráða í búnaðarfélag, aðeins hann. Þau reiknuðu ekki laun á hana enda væri hún að efla eignir sínar og óþarft að vera með vesen tengdum reiknuðum launum. Innleggið var líka allt á hans nafni enda hafði hann átt nokkur ærgildi þegar þau hófu búskap og þegar fleiri voru keypt þá var allt eins gott að hafa þau öll á sama nafni. Kona þessi vissi einfaldlega ekki betur, hún elskaði mann sinn og treysti því að þetta væri gott og gilt allt saman.
Þessi hjónaleysi skildu svo að átta árum liðnum, barnlaus og ógift. Hún gekk út með fötin sín í ferðatösku og 2000 krónur í vasanum og var það eina sem hún uppskar af áttaára erfiðis vinnu. Á pappírum átti hún ekkert og var með engin réttindi. Ég benti þessari konu á að fá sér góðan lögfræðing og krefja mann sinn um vinnukonulaun og laun fyrir vinnu sína við búskapinn. Hún þorði það ekki, hún var brotin manneskja og átti ekkert og vildi bara byrja upp á nýtt fjarri honum.
Þetta er því miður að gerast á Íslandi í dag.

Önnur dæmisaga.
Hringt var á heimili í sveit og talað við bóndann sem í þessu tilfelli var kona. Það var verið að afla upplýsingum í íbúatal fyrir viðkomandi svæði og var kona þessi spurð hvað hún starfaði við. Hún sagðist vera bóndi, viðkomandi varð hálfklumsa í símann og sagði svo já en þú hlýtur að hafa líka einhver áhugamál sem þú starfar við. Konan skildi ekki alveg spurninguna en sagðist jú hafa mjög gaman af handverki og starfaði, á milli mjalta, 2 daga í mánuði í sameignar handverkshúsi í sveitinni. Viðkomandi þakkaði fyrir sig og kvaddi. Þegar íbúatalið kom út var eiginmaður þessara konu titlaður bóndi (sem hann vissulega var) en undir starfsheiti hennar stóð handverkskona.

Ein önnur dæmisaga.
Barn hjóna í sveit var að gera verkefni um fjölskyldu sína. Þar átti að skilgreina hverjir væru í fjölskyldunni og hvað þeir störfuðu við. Barnið sagði að pabbi sinn héti Jón og væri bifvélavirki og ynni við það á verkstæði í þéttbýliskjarnanum nálægt sveitabæ þessum. Barnið sagði að bróðir sinn héti Guðmundur og væri á leikskóla hluta úr degi, svo kom að móðurinni, barnið sagði að mamma sín héti Guðrún og hún væri bóndi hún ynni í fjárhúsinu og í fjósinu.
Verkefnin voru svo hengd upp til sýnis og foreldrum boðið að koma og skoða. Bóndi þessi, þ.e. Guðrún móðir barnsins, varð fyrir töluverðu háði þar sem barnið hafði kallað hana bónda í verkefninu (sem var þó vissulega starfsheiti hennar). M.a var hún spurð að því hvort þetta væri nýja heitið á að vera heima vinnandi húsmóðir. Þessi kona var búfræði menntuð og vann við grein sína. Henni fannst ekkert að því að vera heima vinnandi húsmóðir en hún væri ekki slík. Hún kæmi börnum sínum í skóla og leikskóla að morgni svo hún gæti haldið til vinnu sinnar á búinu. Hún sagði mér að hún væri reglulega spurð að því út í samfélaginu hvort hún ætlaði ekki að fara að fá sér vinnu eða hvort hún væri "bara" heima ennþá.

Það er deginum ljósara að konur í dreifbýli eru þjóðfélagþegnar með sjálfstæð réttindi og við hreinlega neitum því að láta fara með okkur sem annars flokks borgara. Karen Serres er formaður nefndar um málefni bændakvenna í Alþjóðasamtökum búvöruframleiðenda (IFAP) og gaf hún út ákall til stjórnvalda og almennings um að virða þau réttindi sem konur í dreifbýli krefjast. En þar á meðal segir:

Það er réttur kvenna að taka þátt í ákvarðanatöku og í starfi bændasamtaka. Það er mikilvægt að konur í hópi bænda taki þátt í stefnumótun bændasamtaka til að tryggja að tekið sé tillit til hagsmuna þeirra.

Það er réttur kvenna að starfa í landbúnaði. Það skortir enn á réttmæta viðurkenningu á vinnuframlagi kvenna í landbúnaði víða um heim. Vinnuþrælkun kvenna viðgengst, sem og lægri laun fyrir sömu störf og hæfileika. Í sumum tilvikum er aðeins litið á þær sem eiginkonur bænda án sjálfstæðrar stöðu.

Það er réttur dreifbýliskvenna að stunda viðskipti, þau geta stuðlað að bættum hag bændafjölskyldna. Konur sem eru bændur þurfa að geta nýtt sér þau réttindi til fulls.

Réttindi til aðgangs að náttúruauðlindum. Aðgangur að og stjórn á landi og vatni opna leiðina fyrir aukna framleiðni og sjálfbæra þróun landbúnaðar. Eignarhald á landi auðvelda einnig aðgang að fjármagni.

Við konur í landbúnaði eigum langt í land en við berjumst áfram. Við eigum orðin okkar dag sem er 15 október ár hvert. Á þeim degi sameinumst við tökum okkar kvennafrí og förum yfir stöðu okkar. Vonandi getum við í ár vakið meiri athygli á kjörum okkar og fengið almenning og stjórn bændasamtaka íslands til að taka meiri tillit til réttar okkar kvenna sem störfum í landbúnaði.
Lifið heil