Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

miðvikudagur, september 24, 2008

Deó! Baulaðu Búkolla ef þú heyrir...

Í Ferjubakkafréttum er þetta helst; rigning, rigning, rigning og svo aðeins meiri rigning! Já það hefur rignt eldi og brennisteini síðustu daga allir flóar og engjar eru full af vatni og bæjarlækir orðnir að stórfljótum. Nú hefur meira að segja heyrst að eigi að fresta leitum því ekki þykir það á það reyndandi að reka féð yfir beljandi, mórauðar árnar. Sveinninn er í skýjunum yfir hugsanlegri frestun því þá getur hann steypt upp þvottarhúsgólfið ógurlega. Mér finnst nú ekkert liggja á því moldargólfið gefur svo skemmtilegan sjarma og á vel heima með baðstofustemmingunni sem hefur ríkt hér á efrihæðinni síðan við tæmdum kjallarann. Þetta er að sjálfsögðu sagt með vott af glotti og helling af kaldhæðni.

Belju skriflið er öll að koma til eftir kálfsfæðinguna í síðustu viku en hún hefur verið að æfa fimleika til að koma sér í form með tilheyrandi hoppum og stökkum þá sérstaklega þegar verið er að mjólka hana. En í morgun stóð hún bara þokkalega kjurr og gat þá húsfreyjan mjólkað án þess að eiga hættu að fá klaufarfar á kjammann.
Slátrun áætluð um helgina og getur maður þá farið að huga að sláturgerð og bjúgna undirbúningi. Svona eru hausthugsuninn sterk orðin í manni, það kemst ekki annað að en að draga björg í bú og nýta matinn. Sauðamessa framundan og skólaskemmtun hjá Binnanum spennandi, spennandi..
Ekkert fleira svo sem að frétta
Lifið heil