Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Haustrigning


Já hinar árlegu haustlægðir eru komnar með tilheyrandi sunnanátt og rigningu. Við fögnum því sem bændur því svörðurinn sem þjáðst hefur af þurrki vöknar og drekkur í sig guðaveigar. Einnig fagna "vinir mínir" veiðimennirnir því okkar mis-gjöfulu veiðiár vaxa og vaxa og laxinn sem haldið hefur í sér í allt sumar kemst loks upp á uppeldisstöðvar sínar til að hrygna. Verst þótti mér að netið mitt tók út í lögninni í fyrra og gat ég því ekki nýtt mér laxinn um 20 ágúst einsog vinur minn Keli í Koti. Gat ég þó hrætt veiðimennina með því að bændur mættu leggja net sín eftir 20 ágúst og hlakkaði í púkanum í mér þegar ég sá þá fölna upp af hræðslu og viðbjóði yfir því að dýri laxinn þeirra myndi enda sem hversdagsmatur á borði "fáfróðra" bænda. Deildi ég þessum brandara með síungri móður minni sem fölnaði jafn mikið upp og vinir hennar veiðimennirnir og sagði húna með alvöru þunga blaðamannsins í röddinni "Olla mína þú mátt ekki segja hvað sem er við veiðimennina, þeir eru svo viðkvæmir". Já sem sagt sannleikurinn er ekki alltaf sagna bestur og oft má satt kyrrt liggja svo veiðamannagreyin komi aftur næsta ár og eyði peningunum sínum hér. Eða hvað? Veit ekki betur en að stangaveiðifélag Reykjavíkur hafi samið svo um að netalögnin væri tekin upp fram að 20 ágúst, ef þeir vilja að við dýfum ekki netum okkar í Hvítá eftir þann tíma verða þeir bara að borga fyrir það. Þannig gerast kaupin á eyrinni.

Haustrigning gerir fleira en að kæta bændur með þurran svörð og veiðimenn með þurrar ár. Hún einnig þvær sumarið af okkur og boðar okkur nýa tíma. Skólaárið byrjar, vinna byrjar aftur eftir sumarfrí, fé kemur heim af fjalli og bóndinn kætist yfir fallegum skjátum sínum. Kýr fara út í síðustu skipti í ár svo nytina rigni ekki úr þeim og blúsaðar húsmæður kætast yfir myrkrinu og fegurðinni sem fólgin er í hreinsun regnsins. Nostalgía haustsins er í algleymingi (einsog ein góð vinkona mína orðaði það).
Ég ætla að nota þennan tíma sem best og kveikja á kertum og eiga rómantísk kvöld með sólsetri og ljósaskiptum með mínum heitt elskaða og kenna börnunum mínum að meta þennan árstíma.

Ég vona að þið gerið slíkt hið sama, verið góð við hvort annað (jafnvel líka veiðimenn).
Lifið heil