Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

Spennandi tímar framundan

Fékk ofboðslega skemmtilegt símtal í gærkveldi sem hrærði vel upp í mér. Ég sat einsog klessa í fínu stofunni minni og var á mest spennandi, síðustu síðum nýju bókarinnar um hann vin minn Harry nokkurn Potter. Þá hringdi sem sagt síminn og var þar kona nokkur sem var að viðra við mig að taka að mér mjög krefjandi verkefni og vinnu. Ég get nú ekkert farið sérstaklega náið út í þá sálma þar sem þetta er nú allt á bara hugmyndastigi, en ég varð svo spennt að ég gat varla fest hugann aftur við Potterinn. Þetta er mikil vinna, vel borguð reyndar, en kannski svo mikil að við Sveinn þurfum að stokka allt upp í lífi okkar (sem hefur reyndar verið í ágætri rútínu nú um nokkurt skeið). Ég er sem sagt bara að kafna úr spenningi þar sem ég hélt að líf mitt hafði verið sett á hold þar til að krakkarnir væri öll að minnsta kosti komin í grunnskóla.

Þetta fékk mig til að hugsa hvað það er mannskepnunni mikilvægt að vera gera eitthvað sem virkilega vekur áhuga og gleður. Ég hreinlega vaknaði við þetta símtal í gær og finn til langanna og hugmynda sem ég hef ekki haft lengi. Þarf að bursta rykið af heilasellum sem hafa ekki verið notaðar lengi og venja mig á ný að tala við fullorðið fólk en ekki einskorða orðaforða minn við skilning 7, 3 og 2 ára. Ég er sem sagt bara rosalega spennt og vonandi gengur þetta eftir og þá get ég sagt ykkur allt um það.

Annað er helst í fréttum að við erum að allir eru búnir að liggja í hálsbólgu og viðbjóði nema Arndís sem fékk gubbupest. Sveinn var að byrja í sumarfríi og verður í tvær vikur. Seinni sláttur er búinn og við erum að hamast við að klára risið og hyggjum á búferlaflutning þangað upp í dag eða á morgun og þá verður kjallarinn tilbúin til framkvæmda. Draumurinn er að geta flutt inn í svefnherbergin í kjallaranum fyrir jól (sjáum til hvernig það gengur) og klára klósettið niðri bara svona jafnt og þétt fram að vori.
Fleira er ábyggilega að frétta en til að fá þær fréttir verðið þið bara að kíkja í kaffi til mín.

Lifið heil

P.s. Harry stóð undir væntingum og er ég vel sátt við endalokin.