Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Þýtur í laufi...


Það er haust í lofti. Ég er óskaplega glöð með það ég er mikil haustmanneskja. Keyrði til Reykjavíkur um daginn og sá að laufin eru að byrja að breyta um lit í Hafnarskógi. Við rákum kindurnar okkar úr sumarhaganum í gærkvöldi í blíðskaparveðri, ég kveikti undir kjötsúpunni, klæddi mig í pollagallann, setti Pál á bakið í þar til gerðan göngustól og arkaði svo af stað með mínum ekta manni, börnum, föður og litla bró. Skemmst er frá því að segja að þetta gekk einsog í sögu og mikið assgoti er safnið fallegt, kemur vel haldið úr engjunum. Þær nánast hlupu sjálfar beina leið í hána inn á túnum og liggja þar nú í vellystingum. Svo komu allir heim og gæddu sér á kjötsúpu og óskuðu sér þess bæði í hljóði og upphátt að allar smalamennskur væru svona auðveldar.
Grétar í Höll kom svo nú í dag og er að moka í þessum töluðum (skrifuðum) upp úr réttinni og upp úr skurðinum á Brunnflötunum. Ætlum ekki að lenda í því sama og gerðist í vor þegar allt varð að drullusvaði og er því verið að koma fyrir drenlögn og afstífla skurðina.

Ég hef verið að vinna mikið síðustu daga og verð áfram fram eftir vikunni, enda getur maður alltaf notað peningana s.b. síðustu færslu frá mér. En er svolítið skúffuð yfir því að vera vinna meðan Sveinn er í sumarfríi en það verður víst svo að vera og er eitt gott í því, ég þarf þá ekki að níðast á mínum nánustu með barnapössun. Talandi aftur um haustið þá byrjar skólin hjá B.H.S núna á mánudag og A.I.S og P.K.S byrja núna fyrsta september í leikskólanum. Ég byrja svo vonandi í nýrri vinnu nú í september eða byrjun október og hentar hún ágætlega með búskapnum, verð ég þó áfram í aðstoð hjá ömmu annan hvern fimmtudag og eins aðrakvora helgi verðum við með aukabarn einsog í fyrra vetur. Svo verður maður nú að hafa tíma í haustverkin, bjúgna- og slátursgerð hökkun og úrbeiningu og allt sem því fylgir.

Ég læt svo fylgja með mynd af Hafnarfjallinu mínu í hauststillunum og kvöldsólinni
Lifið heil