Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

mánudagur, september 10, 2007

Hann á afmæli í dag...


...hann á afmæli hann Palli... Jebbs örverpið (sem er nafn með rentu bæði smár og stundum alltof knár) er tveggja ára í dag. Hann var svo þreyttur í leikskólanum að hann var sofandi þegar átti að syngja afmælissönginn fyrir hann þar. Við héldum hinsvegar smá partý í tilefni dagsins í gær og buðu ömmum og öfum bæði lang og hinsegin og fékk drengurinn fullt góðra gjafa. Líka kíktu hér skuggamyndir tvær í líki bróður míns og konu hans en dóttir þeirra krúttubollan sem hún er var hér í fullu fjöri. Fór þetta allt friðsamlega fram og skemmti afmælisbarnið sér hið besta.

Í gærkveldi voru hrútar dregnir í sundur og voru 17 settir í sláturhús í morgun en 17 haldið eftir hér heima sem eiga að stækka meira. Ég brunaði einnig til Reykjavíkur í bítið í morgun til að ná í fiskinn minn úr reyk og er búin að bragða og er hann alveg guðdómlega góður.

Svo eru smalir (einsog stóri drengurinn minn orðar leitir) hér um næstu helgi. Binni fer með afa sínum upp á bröttubrekku og ætlar hann nú að fá í fyrsta skipti að fara í leit sem leitarmaður, hann hefur verið með trússið með henni ömmu sinni og svo gengið drottningagönguna upp í Klettstíu síðan hann var 3 ára. Eru menn að sjálfsögðu mjög spenntir yfir þessu. Hér á okkar svæði eru einnig leitir en við þurfum ekki að senda mann í fyrstu leit. Svo eru réttirnar á mánudag og fæ ég víst lítið að sjá af þeim í ár þar sem ég er búin að lofa mér inn í kofa með kaffi allar réttirnar en ég á að sjálfsögðu ekkert fé í þessum réttum þar sem mitt fé er allt komið heim við hús. Kvennfélagið (já með tveim N-um) sér um kaffið í ár en við erum í svo mikilli æfingu að baka að við teljum það ekki eftir okkur að hrista eitt réttarkaffi fram úr erminni (konurnar sem ætluðu ekki að baka!).

Svo svona í lokin langar mig til að óska mágkonu minni henni Unni og hennar manni Kristjáni til hamingju með "litla" prinsinn sem fæddist þeim á fimmtudaginn síðasta og þakka jafnframt fyrir lánið á stóru systurinni, en hér hefur ríkt mikil gleði yfir dvöl hennar hinu megin.

Njótið haustlægðanna
Lifið heil