Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

miðvikudagur, janúar 16, 2008

When I grow older loosing my hear...

...many years from now! Haldið ekki að hún móðir mín sé að verða fimmtug! Jább hún mamma "gamla" (best að hafa gamla í gæsalöppum því móður minni er ekkert um það gefið að vera kölluð gömul) á afmæli á sunnudaginn og verður þá heila fimmtíu vetra. Ég er búin að vera að leita logandi ljósi að textanum um mömmu eftir Ljótu hálfvitana því mig langaði sérstaklega að smella honum hér inn og tileinka hann mömmu minni en ég tel hann vel passa við hana :). En textann fann ekki á netinu og er því miður ekki svo rík að eiga plötu þessarar ágætu sveitar. En hún móðir mín ákvað að vera að heiman meðan þessi ósköp riðu yfir og dró hálf lasburða, ennþá bara 49 ára, föður minn með sér til Tenerife og liggja þau þar og sötra bjór og baða sig í sólskini eins og miðaldra Íslending sæmir.
En við þessi tímamót var mér óneytanlega hugsað til þess að mamma mín er af þeirri kynslóð að ekkert er ótrúlegt að hún muni ná 100 ára aldri og vera þó nokkuð ern (þ.e. ef hún fær ekki lungnakrabba!) á þeim aldri. Ég sé fyrir mér 100 ára afmæli móður minnar en það gerist í höfðinu á mér nokkurn veginn á þessa leið:

"Hún á afmæli í dag (o.s.frv.)"
-Hhhhaaaaa? hvað eru þau að segja?
-Þau eru að syngja afmælissönginn minn Olla. Kallar móðir mín hárri röddu
-Núhh eru þau ósköp núna. Hvað ertu gömul 200 ára? Segi ég með miklu þjósti
-Nei nei ekki nema 100 ára núna.
-Jáhh það getur ekki nokkur heilvita maður munað svona háan aldur þú ættir að vera löngu dauð!
-Nei nei ég er svo hress, eigum við ekki að tjútta svolítið. Segir móðir mín og smellir fingrunum í takt við ELO hold on thight to you´r dreams.
-Haaa hvað varstu að segja?? Garga ég
-Það er svo mikil dómadags hávaði hér mamma við skulum fara, helvítis pönkarar að djamma hérna!
-Ég heyri ekki í þér! Kallar mamma til mín og sveiflar veiklulegum 75 ára karli í kringum sig í óðum dansi sem móður minni er einni lagið.
-MAMMA!! KOMDU!! Garga ég í móðursýki
- Ohh ok ég skal keyra þig inn á herbergi svo þú getir lagt þig svolítið, svona partý eru ekkert fyrir svona gamalt fólk einsog þig! Segir mamma mín og þrífur í hjólastólin minn og keyrir mig inn í herbergið mitt á Dvalarheimili ellismella í BlaBla landi.

Móðir mín hefur haldið því fram allt frá því ég man eftir mér að hún verði manna elst og muni keyra mig um í hjólastólnum og sjá um mig í ellinni, þar að segja minni elli hún muni einungis yngjast með hverju árinu. Hver veit nema þessi spádómur hennar muni rætast.
En alla vega móðir mín verður fimmtug á sunnudaginn og ég hvet ykkur sem hana þekkja að senda þeirri gömlu sms í tilefni dagsins. Hún er í skránni!
Lifið heil

P.s. ef einhver sem slæðist hingað inn á textann Mömmu með Ljótu hálfvitunum má hinn sami senda mér hann í tölvupósti.