Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

þriðjudagur, ágúst 12, 2008

Takk for sidst

Jæja ég er búin að svekkja mig á því í allt kvöld hvað allir eru eitthvað værukærir á bloggheimum. Engin ný og djúsí blogg um nálífi þeirra sem ég þekki (og enn betra) þeirra sem ég þekki ekki. Þannig ég verð bara sjálf að skapa mitt eigið djús því, og vitna nú í orð gamals kunningja, heimabrugg er jú alltaf best.
Get nú samt ekki glatt ykkur (jaa ef einhver lifandi hræða villist enn hér inn) með neinum sjokkerandi og djúsí fréttum. Ég er ekki skilin, né dauð eða stunda framhjáhald (nema væri með göngustöfunum mínum sem ég hef tekið ástfóstri við í sumar (mjög skítugir hugar geta auklaust fundið eitthvað kínkí út úr þessu)) engin stórslys né harmleikir hafa skeikið mig eða mína þetta sumarið. En það er ekki þar með sagt að sumarið hafið ekki verið mjög yndislegt í alla staði (og er enn því það hefur nú ekki yfirgefið okkur alveg).
Ekki var nú samt stórum ferðalögum að flagga þetta sumarið hjá okkur Ferjubakkafjölskyldunni en við fórum nú samt og viðruðum tjaldið góða (fjölskyldudjásnið 40 ára gamla) í 3 daga útilegu í Reynivallaskógi rétt við Húsafell. Við nenntum einfaldlega ekki lengra enda alltaf besta veðrið hér heima í sumar. Krökkunum fannst þetta æði og get ég ekki neitað því að við "gömlu" skemmtum okkur mjög vel í badmintoni, fótbolta og varðelda íkveikjum með börnunum. Einnig voru nokkrar minni ferðir farnar m.a. gönguferð frá Grafarkoti yfirum litla Skarð að Lambavatni sem var sérlega skemmtileg og svo hin "árlega" kajaka ferð okkar á Hreðavatn (sem væri nú skemmtilegra ef við fyndum tíma til að gera oftar þar sem bátarnir okkar nánast öskra af vatnsskorti :))
Svo fékk ég kæra vinkonu mína í heimsókn "allaleið" frá Danmörku og var hún hjá mér í 5 daga, ber fyrirsögn þessa póstar merki um íslensk-dönsk-enskuna og reyndar þýskuna sem einkenndi samskipti okkar vinkvennana. Margt var gert og fórum við m.a. á Reykholtshátíð á dýrðlegan strengjakvintett frá Tékklandi og svo í hátíðarmessu þar sem ekki dugði minna en 4 presta og 1 biskup að þjóna til alltaris og er ég nú orðin svo menningarleg að hún hreinlega lekur út um eyrun á mér. Við skemmtum okkur svo við rauðvínsdrykkju og stelputjatt inn á milli gönguferða. Má þess geta íslensku kvenþjóðinni til hylla að þessi danska vinkona mín er sérstaklega hrifin að íslenskum konum, finnst við sjálfstæðar og sterkar og tala nú ekki um þær fallegustu í heimi ;).

Heyskap er nú formlega lokið hjá okkur og gekk hann mjög vel og var spretta í meðallagi góð. Ég er nú orðin kúabóndi með heilar 2 kýr og 5 kálfa fer því í fjós kvölds og morgna að mjólka, er ekki alveg búin að gera það upp við mig hvort þetta eigi við mig, en enn sem komið er er þetta allt í lagi og mjólkin finnst mér vera nauðsynleg fyrir heimilið.
Svo fer nú bara að styttast í ráðstefnu sem ég er að setja saman með kyn- og stéttsystrum mínum í lifandi landbúnaði. En það koma 9 erlendar konur á hana og stoppa í heila viku og er ég núna upp að olnbogum að láta allt smella, en það er í nokkuð mörg horn að líta. Svo erum við í LL líka með kynningarbás á landbúnaðarsýningunni á Hellu sem verður 22-24 ágúst og er ég að reyna klára það allt en vonandi hefst það fyrir undirbúningsfund sem er planaður í bændahöllinni á mánudag.
Jæja margt smátt og stórt að gerast og hefur gerst hjá okkur á Ferjubakka í sumar en ég er að hugsa um að hafa þetta ekki lengra að bili.
Lifið heil