Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

mánudagur, september 01, 2008

Við byggjum saman bæ í sveit..

.
Fyrsta fjárstússið á þessu hausti lokið, en við rákum féð inn á tún í gærkveldi og gekk það vonum framar, enda þekkja skjáturnar nú vel hvert þær eru að fara og lalla sér nokkurn veginn sjálfar. Síðasta ferð upp á Hvamm var einnig í gær og eitraði ég fyrir haustið og vona þá að þurfa ekki að eitra eins mikið næsta vor. Sveinninn trillaði með slátturvélargarminn yfir nokkur leiði en annars þurfti ekki að slá enda spretta sama sem engin frá því síðast. Féð kemur ekkert sérstaklega vel úr engjunum í ár enda er það ljóst að það hólf er orðið of lítið fyrir þær og verða lömb og veturgamalt rekið á fjall næsta vor og svo krossaðir fingur í von að fá eitthvað af því niður að hausti.
Rafvirki sást hér á laugardag og er ég nú komin með nýja rafmagnstöflu niðri og ætlar nú pípari jafnvel að láta sjá sig um næstu helgi og færa rör og hitakúta. Sveinninn hefur alið þá von í brjósti mér að fá svefnherbergi fyrir jól með gólfhita og öllum græjum. Vona bara að það standist get ekki varist því að vera orðin nett þreytt á því að bera óhreinan þvott á milli hæða...ÚTI og bera hann svo til baka hreinan og eiga enga fataskápa. Svo nú bretta bara hjónin upp ermarnar og spýta í lófana og koma þessu frá sem fyrst.

Nú er Sveinninn orðin hestamaður (eða verður það fljótlega) en hann ætlar sjálfur í leitir (að ná í annarra manna fé og greiða í þokkabót fullt af peningum.. en þetta er allt önnur umræða og verður tekin síðar fyrir hér) fer hann með hest Binnans sem er nokkuð viljugur og lipur barnahestur og svo meri móður sinnar sem er frekjudolla á fjórum fótum (þ.e. hrossið ekki móðir hans). Nú þarf minn maður að fara að ná sér í smá hnakk sigg og því þarf hann að ríða út á hverju kvöldi fram að leitum. Verður gaman að fylgjast með gæðingatöktum Sveinsins og hrossanna.
Man ekki eftir fleiri fréttum í bili, svo þar til næst..
Lifið heil