Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

föstudagur, maí 30, 2003

Home, home on the ranch!

Ég hef bara ekkert að segja í fréttum. Allt svo rólegt. Ég er bara alein heima alla daga og bíllaus í þokkabót. Sveinn er hjá háaldraðri móðurömmu minni alla daga að setja upp skápa. Var að spá í hvort ég þyrfti að fara að hafa áhyggjur....meina amma er mjög myndarleg eldri kona?? Nei, nei ég held ekki. Annars hef ég verið að spá, ég held að ég hafi haft veruleg áhrif á einn af snillingum samtímans þ.e. Konráð bróðir. Bróðir minn er farinn að rita í gríð og erg í vefdagbók sína og ekki nóg með það heldur er hann bara meir í lýsingum sínum á fegurð umhverfisins. Kannski hefur það verið honum hvatning að lesa opinskátt (full opinskátt fyrir suma fjölskyldumeðlimi) blogg mitt? Annað hvort það eða að bróðir minn er að leyna mig upplýsingum um ástarmál sín og sé einfaldlega ástfanginn af einhverri blómarósinni í Reykjavíkurhreppi (vona bara að pabbi hennar sé ekki í stangveiði félagi Reykjavíkur). Annars var ég að spá í að fara í gönguferð í dag og knúsa hana Dúnu mína svolítið það er langt síðan ég gerði það og verð bara alveg ómöguleg ef ég geri það ekki reglulega. Annars var ég líka bara að spá í að halda áfram að vera í skrítnu skapi og hætta að vefjast í bili. Kannski að ég riti meira í kvöld
Lifið heil.

fimmtudagur, maí 29, 2003

Drullumall!

Jæja nú er bara húsið hjá mér eins og þar hafi verið hópur brjálaða drullumallara, að malla drullu. Þannig er mál með vexti að holan í garðinum er farin að draga dilk á eftir sér. Það er svo mikil drulla allstaðar að ekki er hjá því komist að bera hana inn með sér undir skónum. Þannig að íbúðin mín er eins og drullusvað. Annars er ég ekkert að kvarta þetta er hin ákjósanlegasta gróðurmold og ef moldarlagið verður mjög þykkt á gólfunum hjá mér þá bara skelli ég nokkrum blómum og fíneríi í hana. Hins vegar er stór hættulegt að ganga um garðinn hjá mér og vil ég vara alla við sem reka hér inn nefið að vara sig og ganga ekki fram af brúninni.

Hrútarnir hafa ekkert látið sjá sig. Sveinn hitti nágranna skaðræðisgripa-eigandann í gær og spurði hvort hann mætti ekki skjóta helvítin ef þau kæmu aftur. Gripirnir voru því snarlega færðir í gær. Það er ekki laust við að maður sakni þeirra, þeir hefðu verið svo hel. góðir á grillið.

Ég fór ásamt mínum ekta spússa og foreldrum á snobb samkundu í veiðihúsinu við Norðurá. Ég verð nú bara að segja það að þetta var agalega bjánalegt. Okkur var tilkynnt að mæta klukkan átta stundvíslega og þar sem við erum svo stundvíst fólk þá gerðum við það. Þá var tekið á móti okkur með áfengnum drykk og mátti maður velja milli rauð og hvítvínar eða bjórs. Ég fékk mér spræt og héldu allir því að ég væri með vodka en Sveinn fékk sér bjór ásamt foreldrum mínum. Þarna var staðið og hellt í glösin hjá manni með reglulegu millibili alveg til níu. Þá hófust ræðuhöld og stórýktar fiskveiðisögur (þar sem flestir hefðu lent í því að veiða hval) og lauk því ekki fyrr en um hálf tíu. Þá var okkur gjört svo vel að fara í langa biðröð og snæða snittur og annan pinna mat og svo auðvita helt meira í glösin. Þegar þarna var komið var ég og minn maður og mínir foreldrar orðin svo hungruð að við fórum áberandi margar ferðir að þessu fína hlaðborði. En allir hinir og þá sérstaklega snobbliðið úr Reykjavíkurhreppnum var orðið svo ölvað (og náttúrulega allar kerlingarnar í megrun svo þær kæmust í fínu fötin frá 17) að það borðaði mest lítið. Svo var náttúrulega hellt og hellt í glösin. Agalega fínt allt saman. Annars var mamma mín alveg best, hún mætti þarna í röndóttum sokkum og í sandölum og rauðri kápu-úlpu, sem hún fór ekki úr allan tíma vegna kulda, (það er svo agalega fínt að hafa opið út í svona fínum veislum). Og meðan allar fínu forstjórafrúrnar sátu í hnapp og töluðu saman og hneyksluðust á sveitalýðnum (þá sérstaklega fótabúnaði móður minnar) og ekki virtar viðlits af fínu mönnunum þeirra því þeir voru svo uppteknir af því að mingla við alla hinu fínu forstjórakarlanna. Þá hneykslaði mamma þær sko alveg upp úr skónum því hvenær sem hún birtist nálægt fínu veiðiköllunum að þá tóku þeir kipp og föðmuðu hana og kysstu. Þú lesandi góður hefðir átt að sjá svipinn á kerlingunum. Ég fann nú enga skýringu á þessari hegðun fínu karlanna nema þá helst að þeir hafi verið dáleiddir með röndóttu sokkunum hennar. En á leiðinni heim sagði mamma mér að hún væri í einhverri nefnd fyrir Gljúfurá og þeir væru allir að smjaðra fyrir henni til að halda henni góðri. Mér fannst þetta rosa fyndið. :o)

Það er búið að vera blíða í allan dag og fórum ég og nágrannagellan í sólbað. Ekki hef ég tekið lit nema þá kannski hellst þá rauðan en gaman var að sitja og spjalla úti í sólinni.
Annars hef ég bara engar fleiri fréttir í dag og ætla því bara að láta staðar numið
Lifið heil

miðvikudagur, maí 28, 2003

Good morning sunshine!

Ég á bágt með að vera reið á þessum dýrðar deigi. Enda er ég það ekki, allavega ekkert rosalega. En ég vaknaði í morgun við hróp og köll í frumburðinum. Var einna líkast að hann væri að særa út illa anda eða rollur! Nágrannaplágurnar voru komnar aftur. Nú brýnandi horn sín á síðum míns fína skoda og einnig gerðu þeir sig eitthvað tilkippilega við púströr tengdamömmu-vagnsins. Ég hrökk upp í Evu-klæðum einum saman og stökk fram þar sem sonur minn hóaði eins og sannur Mýramaður. Hrútnum sem stóð þar fyrir utan gluggann var svo hvelft við þá sjón sem ég var að hann tók til fótanna. Fóru því feðgar eftir fjósmál og reyndu að hindra framgöngu þessa brjálaða bústofns sem nágranninn er að koma sér upp. Mér var aftur á móti tilkynnt af syni mínum að þetta væri svaðilför og aðeins fyrir hrausta karlmenn en ekki fyrir litlu-börn. Mátti ég því ekki fara með. Ég fékk mér því bara morgun göngu á meðan. Vil ég taka það fram á þeim tíma var ég búin að draga leppa á minn skrokk.

Það kom hér stórtæk vinnuvél í gær og mokaði stóra holu í garð minn. En þannig er mál með vexti að Sveinn minn er að smíða sér sólpall og þurfti því að moka því ekki dugði að leggja sólpallinn í halla. Sem mér fannst þó persónulega ágætis hugmynd því þá þyrfti maður ekki að fá sér sólstól með halla bara leggjast beint á pallinn. En það er ekki víst að stór grill fjölskyldunnar haldist kjurt á slíku mannvirki. Menn eru allir eins. Því voru komnir hér fjórir fullvaxtakarlmenn að spá og spekilúra (tveir ekki alveg fullvaxta líka). Þeir drukku bjór og skeggræddu um hina og þessa viðartegund og vélategund og örugglega hafa umræður spunnist að einhverju leyti um brjóstategundir líka. Svo keyrðu þeir hjólbörur eins og ekkert væri skemmtilegra og einn inn í vélinni og mokaði. Enda þegar Sveibbi minn kom inn að verða 11 þá ljómaði hann einsog sól í heiði þrátt fyrir allar hjólböruferðirnar. Ekki þarf nú mikið til að halda þessum elskum ánægðum.

Móðir mín sendi mér rafpóst í morgun og tilkynnti að hún hafði lesið skrif mín. Hún taldi þau helst til persónuleg fyrir sig og taldi að hún hefði ekki kjark í sínu brjósti til að skrifa svona opinberlega frammi fyrir alþjóð. Hún hefur greinilega ekki séð teljarann. Hún kvartaði sáran um að sín væri ekki minnst, en gerði svo einsog drengurinn í dæmisögunni um súru eplin, og sagði að það væri víst eins gott því það væri ábyggilega ekkert gott sem ég myndi skrifa um hana. Ætla ég því hér að bæta úr því hið snarasta og segja "alþjóð" að betri mömmu sé ekki hægt að finna þótt víða væri leytað. Annars er við Sveinn að fara með foreldrum mínum fyrir hönd foreldra Sveins í agalegan snobb kvöldverð í veiðihúsið við Norðurá í boði snobbverja í stangveiðifélagi Reykjavíkurhrepps. Þar eigum við sem "landeigendur" að njóta þess besta sem völ er á í snobbi í dag, svo sem fordrykkjar og þriggja rétta máltíð, og sitja undir ræðum og lygasögum stangveiðifélaga um góða veiði í fyrra sumar og von um enn betri veiði í ár. Ég verð nú að viðurkenna að ég er nú svolítið snobb svona innst inni og hef því agalega gaman af svona snobb-samkundum og alltaf er nú ókeypis matur góður. Ég hef reyndar ekkert vit á stangveiði og þaðan af síður er ég landeigandi þannig að ég er bara að smygla mér þarna inn á boðsmiða tengdaforeldra minna en þau komust ekki vegna anna í kirkjusöng.

Annars er nú bara tilveran björt og blá og gaman að vera til í dag. Ef ég hef heilsu til þá kannski geri ég mér dagamun og vaska upp. :o) En er samt að hugsa um að hætta þessu blaðri í dag og drífa mig út í góða veðrið.
Lifið heil.

þriðjudagur, maí 27, 2003

Leti, leti, leti. Leti líf mitt er!

Jæja þá er einum af þessum leti dögum mínum að ljúka. Ég hef bara gert ekki neitt í dag. Jú annars ég rak út nágranna hrútana í morgun. Helvítin á þeim, þeir virða bara engar girðingar troða sér bókstaflega allstaðar í gegn. Sveinn kom að þeim í morgun við að nota eðalvagn okkar sem bakklóru og var ekki par hrifinn. En það var sem við manninn mælt þeir voru vart farnir út þegar þeir bókstaflega brutu sér leið inn aftur. Ég meina ég veit að við erum skemmtileg og allt það en com'on take a hint. Annars gerðist markvert í dag að Rarik karlar komu hér í dag með stórvirkar vinnuvélar og byrjuðu að moka í sundur öll tún hérna. Þeir ætla sér að koma rafmagnslínunum í jörð. Mér fannst nú að þeir hefðu alveg geta gert þetta í vetur þar sem ekkert var frostið lengst af, í staðin grafa þeir nú sundur túnin sem á að slá eftir u.þ.b mánuð. Annars kássast þeir nú ekki mikið upp á okkar tún, heimatúnið fær smá skurð í jaðarinn, en nágrannarnir fara verst út úr þessu þar sem er næstum grafið sundur öll túnin þar. Ótrúlegt hvað þeir hjá ríkinu virðast geta vaðið yfir fólk, maður fær engar tilkynningar um þetta eða fyrirvara bara mætt einn daginn og byrjað að grafa. Þeir þurfa víst ekki einu sinni að láta fólk vita, hvað þá að spyrja um leyfi. Mér finnst þetta vera til skammar og minna á einhver einræðisríki. Þetta þýðir það að Pétur og Páll frá ríkinu geta labbað inn á mína landareign (in the future) og gert það sem þeim sýnist. Jæja ég ætla ekki að æsa mig yfir þessu núna, nenni því ekki.

Júróvisjón er komin og farin með pompi og prakt. Ég og minn ekta spússi sátum sem límd þegar Skyrbytta Laukdal (ala konráð bróðir) tróð sviðið með sína tunnu í klofinu og sýnandi nýjustu leyfis- íþrótt okkar landsmanna, Þ.e.box, syngjandi stolið lag við grunnan texta og var ekki laust við að maður táraðist af stolti og þjóðerniskennd. Annars fannst mér áberandi hvað lagasmiðir Evrópu er orðnir þurrausnir því þarna var næstum hvert lag stolið meira eða minna. Líka fannst mér áberandi hvað mörg lög voru afspyrnu slæm og illa sungin, virtist vera meira lagt upp úr því að fá kal á tærnar og fækka fötum. Persónulega beið ég bara stundum eftir súlunni. Maðurinn sem bar af í frumleika og áræðni fékk mitt stig og míns manns en það var austurríkismaðurinn. Mér fannst hann æði og mamma hans virkilegt krútt þótt svo að hún gæti alls ekki sungið. Annars er ég persónulega á þeirri skoðun að hver þjóð eigi að syngja á sínu tungumáli. Ég held að margir séu sammála mér þar því bæði lagið í fyrsta og öðru sæti var sungið á framandi tungumálum, reyndar lagið í örðu sæti á bullísku. Ég held að engelsaxnensku löndin hafi ekki meiri vinnings möguleika en hvert annað land. vil ég minna á heimsfrægð ABBA í kjölfarins sigur í júróvísijon, þar sem þau unnu með Waterloo (held ég) og sungu það á sænsku. Annars fannst mér sigurlagið afspyrnu illa sunguð og áberandi munur á söngnum í hljóðvers útgáfunni og svo sviðs útgáfunni.

Vil ég að lokum lýsa frati á bróðir minn fyrir að bjóða mér og mínum ekta spússa ekki í Júróvísjón partý. Ekki það að við hefðum mætt en gaman að fá boð enga að síður.
Læt ég þessu nú lokið í dag
Lifið heil

mánudagur, maí 26, 2003

Mér finnst rigningin góð!

Ég er alveg í skýunum, það er búið að rigna í allan dag og við Binni búin að vera úti að stússa í pollagöllunum okkar. Sveinn segir að ég sé ótrúlega skrítin og það sé beint óeðlilegt hvað ég hef mikið yndi á rigningu. Ég verð bara að viðurkenna það að rigning og logn er besta veður sem ég er í. Ég tek það fram yfir sól og blíðu enda aldrei verið mikill sóldýrkandi og ber fölur skrokkur minn þess augljós merki.

Ég er ótrúlega hamingjusöm þessa dagana, bara yfir öllu þessu litla sem maður tekur flest fyrir sjálfsagðan hlut. Rigning, sumarið, sveitin, Binni minn og Sveinn já og síðast en ekki síst tengdamömmu-tölvan mín virðist vera í góðu skapi og bara virkar all sæmilega. Ég bara næ ekki þeirri kreddu úr mér að vera hér í sveitinni og ég get bara ekki beðið eftir því að fá rollurnar mínar í haust. Ég er alveg viss um það að svo lengi sem við Sveinn búum í sveitinni þá verðum við "seif". Við höfum ákveðið það að vera ekki með hefðbundinn búskap heldur bara svona "sjálfsþurftar" búskap. Sem sagt vera með nægjulegar margar skepnur fyrir heimilið og vinna úti. Ég sé þetta allt fyrir mér fara í fjósið og mjólka þessar 3 beljur sem verða eftir og gefa svo rollunum, og langar mig jafnvel að vera með geitur og kynna mér osta gerð. Hænur ætla ég líka að hafa og svo leggjum við net á haustin og verðum með matjurtir í gróðurhúsinu. Allt lífrænt ræktað. Ég stefni á nám í grasafræðum og er jafnvel farin að búa til skýaborgir með að tengja þetta allt saman, búskapinn og grasalækningarnar, og vera með einhverskonar náttúrlækningahæli. En þetta er nú bara ársbundnar drauma-kreddur í mér.

Nágrannagellan hefur hafið netbókarfærslur á ný eftir langt hlé og hvet ég alla til að líta til hennar. Reyndar byrjaði hún líka að vinna í dag og get ég ekki annað sagt en ég hafi saknað hennar í dag. En hefur hún verið nær daglegur gestur hjá mér síðustu 2 vikur. Við erum sálfræðingar hvorar annarar.
Annars er ég svo meir af hamingju í dag að ef ég fer ekki að hætta þá fer ég að tala um langþráð og mikilfengið kynlíf mitt síðasta sólarhringinn því ætla ég að setja hér punktinn.
Lifið heil.