Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Jólin maður..

Jæja nóg að gera líkt og vant er á þessum árstíma. Finnst þó einhvern veginn sem nýja vinnan sé að verða viðameiri en ég þorði nokkurn tíman að ímynda mér. En gengur vel og ég hef virkilega gaman að þessu starfi mínu, sé pínulítið fyrir mér að ég sé að vinna að hugsjón sem svo margir deila með mér sem er að styrkja Íslenskan landbúnað. Jólin nálgast líka alltof fljótt með tilheyrandi amstri. Alltof margar jólagjafir ókeyptar, alltof margar kökur óétnar og óbakaðar og enn fleiri gólf og veggir sem þola gott jólaskrúbb (og ég sit bara hér og blogga!)

Hef verið frekar löt hérna heima við síðustu daga og vikur enda á nýja vinnan hug minn allan og er ég ansi stressuð yfir öllu því sem ég þarf að klára þar fyrir stóra fundarherferð sem farin verður hringinn í kringum landið nú í janúar. Eins gott að ég er mikið fyrir sviðsljósið því ég verð svo sannarlega að stíga á stokk á þessum fundum svo hefur verið umfjallanir um okkur í stjórn L.L bæði í Bændablaðinu og svo líka í Skessuhorni (mætti halda að ég hefði einhver ítök þar!!).

Vorum í skírn á síðustu helgi og var giskið mitt greinilega feyki gott því pilturinn hlaut nafnið Jóhannes Þór líkt og ég spáði hér í síðasta pistli. Einnig var afmælisveisla hjá stóru systurinni og voru börnin ansi ánægð með að þurfa ekki að vera í fínni skírnaveislu sem fram fór í stofu heldur í ærslagangi inní barnaherbergi, jafnframt var fullorðna fólkið ansi ánægt með að hafa bara ró og næði til skrafs og ráðagerða frammi í stofu. Allt sem sagt haganlega gert og þakka ég gestgjöfum fyrir mig og mína.

Laugardagurinn fór í laufabrauðsgerð á Borgum með tilheyrandi laufabrauðsáti og útskurði og nammi og jólaöl drykkju líkt og hefðin segir til um. Höfum við engu gleymt frá því í fyrra og var jafnvel bætt um betur í ár!

Sem sagt jóla jóla í fullum gangi hér ásamt mörgu fleiru, en læt hér staðarnumið af Ferjubakka fréttum
Lifið heil