Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Margt og mikið

Jæja, jæja ég komin aftur á klakann og komin með þetta fína netsamband (vonum að það endist). Danmörk var einstök og upplifði ég mig pínu lítið einsog Sölva Helgason en hann þóttist hafa menntað sig í Danmörku þegar í raun hann sat á Borgundarhólma. Ég þykist hafa lært allt um tungu, land og þjóð á þessum viku tíma þegar raun ævin myndi ekki endast í slíkt nám. En þetta var mikil og ströng dagskrá þar sem farið var á fætur um 7 á morgnana og í ból eftir miðnætti. Alla daga voru fyrirlestrar og svo útsýnisferðir, ráðstefnur, kynnisferðir (m.a. á smalahundabúgarð) heimboð til hátignagesta (jaa eða gott sem) og svo vorum við með tvær kynningar á landi og þjóð og svo náttúrulega okkur sjálfum og samtökunum okkar, Lifandi Landbúnaði. Öllu þessu var þjappað á litla viku og máttum við halda vel á spöðum til að komast yfir allt, farastjórinn okkar sá nú mestu um að halda okkur við efnið þar sem við hinar vildum gjarnan gleyma okkur yfir einhverju einu. En svona stress miklu líferni fylgir oft kvóti og ég kláraði minn á leiðinni heim þ.e. í bílnum á leið til Billund í innanlandsflugið en þar tók ég að veikjast í maga og svo skreið/hálfhljóp (mjög undarlegt, ég veit) ég inn í flugstaðarbygginguna og vermdi og faðmaði klósettskálar hennar til skiptis þar til að haldið var í loftið. Svo var 6 tíma bið á Kastrúp (sem í mínum huga heitir ekkert annað en Kast'upp) og notaði ég Gustafsbergin svolítið þar líka en fór svo að skána í fluginu heim. Ég fékk hita og beinverki líka og kennir Þetta mér að ég er orðin of gömul fyrir stressmikið líferni á erlendri grundu. Þessi vika hefur svo farið mest megnist í að jafna mig og hef ég sofið á við meðal ungling eða sem nemur um 16-18 tímum á sólarhring og er nú að skríða saman. En vel var þessi ferð allra þessa veikinda virði.

Áður en ég flaug út í þessa viðburðaríku ferð var haldin aðalfundur Lifandi Landbúnaðar í Bændahöllinni og mætti ég að sjálfsögðu á staðinn. Þar urðu stjórnarskipti en fráfarandi stjórn hafði þá setið í 4 ár (vona að ég fari rétt með þá tölu) og unnið þrekvirki hvað varðar að koma þessum samtökum á koppinn og er svo í dag að póstlistinn okkar telur 300 konur hringinn í kringum landið. Hitinn og þunginn af þessum verkum hafa reyndar hvílt mest á herðum þeirra Sigríðar Bragadóttur frá farandi formans og verkefnastjórans Ragnhildar Sigurðardóttur. En til að gera langa sögu stutta þá var undirrituð kosin í stjórn ásamt tveim öðrum sóma konum og geri ég ráð fyrir að fyrsti stjórnarfundur verði í lok þessarar viku eða snemma í þeirri næstu og get ég ekki annað sagt en ég hlakki til að halda áfram þessari miklu ferð í þeim tilgangi að styrkja konur í dreifbýlinu. Þannig ef það eru einhverjar dreifbýlistúttur þarna úti sem langar að vera með í lifandi og skemmtilegum samtökum og komast á póstlistann okkar þá má sú sama hafa samband við mig nú einnig líka ef ykkur langar til að fræðast um hvað Lifandi Landbúnaður gerir og annað slík.

Meðan ég var úti þá var Sveinninn hér heima á fullu við að brjóta og rútta út af neðri hæðinni og var margt þar fróðlegt að sjá, sem dæmi þá komst hann niður um eina 10 cm í gamla svefnherberginu okkar í gegnum gömul lög af gólfum og "einangrun" þannig að þar verður hægt að setja gólfhita (maður er alltaf að græða) og einnig er nú komin góður vísir af hurðargati inn í verðandi svefnherbergis okkar hjóna. Svo var bramlað af veggjum forskölun, plötur og plast og verður því lítið mál að setja rafmagnið inn í veggina en það var mestan part utan á liggjandi.
Jæja get haldið endalaust áfram með fréttir af mér og mínum en læt gott heita í bili, svo þar til næst
Lifið heil