Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Mér finnst rigningin góð...

Uppáhalds veðrið mitt þessa daganna, logn og rigning. Ég dreif mig í góðan göngutúr nú kvöld og rak skjáturnar mínar í heimahaganna en þeim finnst ógurlega gaman að skottast yfir til nágrannans og náði ég mér í kúsaft útí fjós á bakaleiðinni. Mér líður alltaf betur í svona veðri, verð einhvern veginn pínulítið betri manneskja, skola í burtu syndunum, tala við Guð minn og hugsa allt og ekki neitt. Rigningin er góð.

Erum farin að leggja netin og lætur veiðin ekki á sér standa veiðum bæði stórt og mikið og erum himin sæl með það. Sendum vonandi fyrsta skammt í reyk núna í næstu viku. Ættingjar og vinir njóta góðs af því og einnig við og skemmtunin er öll okkar.

Yngri og yngsta byrja í leikskólanum í næstu viku og get ég ekki beðið eftir því að fá morgnana í friði í allt sem þarf að gera bæði hér inni og úti, einnig hlakka þau mikið til að fá útrás og leika sér við aðra krakka.

Ég hvet alla til að drífa sig út í regnið og skola sig svolítið og finna góða ilminn af haustinu.
Lifið heil

mánudagur, ágúst 27, 2007

Góðan daginn gamla gráa skólahús....


Fór með frumburðinn í annað sinn á skólasetningu í dag. Hann er ekki lengur yngstur, orðin mjög stór, kominn í annan bekk og ekki neðstur í goggunarröðinni, heldur getur miðlað af reynslu sinni til hræddra fyrstubekkinga sem "kunna bara ekkert á það að vera í skóla mamma". Ekki er maður alveg laus við skólaskjálfta þótt svo í annan bekk sé kominn erfitt er að sofna og maður er svolítið uppstökkur og viðkvæmur í sinninu sínu. En fljótlega kemst allt í rútínu og skjálftinn rennur af.

Mér finnst alltaf jafn sniðugt að vera foreldri barns í grunnskóla, get nú ekki sagt að ég eigi sem bestar minningar úr þessu skólahúsi, en samt er þó gaman að koma þangað aftur sem foreldri og sjá með þroskuðum augum allt umhverfið sem var svo litað æsku síðast er ég sté þar. Drengurinn minn er þriðja kynslóð í minni fjölskyldu sem gengur í þennan skóla. Skólinn hefur breyst og þroskast í takt við þessar kynslóðir og er nú sem nokkuð miðaldra karl sem hefur stækkað á alla kanta. Mikla visku geyma þessir veggir, en líka ansi mikla hrekki, glettur og leiki, grátur og hlátur þriggja kynslóða.

Ég er óskaplega fegin að vera búin með grunnskólann og vona bara og bið að ég komi syni mínum sem minnst sködduðum í gegnum hann líka. En vonandi fær hann líka allt aðra upplifun af skólanum en ég og klárar hann og kveður eftir 10 vetra nám með söknuði og gleði í hjarta yfir þessum yndislega tíma sem hann hefur eytt þar.
Lifið heil