Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Það er komið sumar

Jú jú haldið ekki bara að sumarið sé komið og það fraus saman vetur og sumar alveg upp í -9 gráður þannig að sumarið hlýtur að verða sérstaklega gott. Við Svenni babe erum rosa brún og sæt enda ný komin heim frá Kanarí þar sem við eyddum 7 yndislegum dögum í sól og sumar il. Drukkum bjór og pinacolada og lágum á ströndinni og þess á milli gengum okkur upp að öxlum. Sveinn varð náttúrulega gamall í ferðinni eða heila 30 vetra og ber hann aldurinn óvenju vel, alla vega er ég alveg jafn skotin í honum og þegar hann var 29, ef ekki bara meira :).
Við höfum svo varla stoppað vegna anna síðan við stigum á eldgamla ísafold því ég fór strax um kvöldið (miðvikudags síðustu viku) út að borða með kerlunum mínum í L.L þar sem við slúttuðum námskeiðinu okkar með glæsibrag. Strax morgunin eftir brunaði ég upp í Valfell og tók að raða borðum og vinningum og setja eitt stykki bingóvél saman ásamt karli föður mínum og Gufu-kerlunum mínum en þar vorum við með sumardaginn fyrsta Bingó sem var bara vel heppnað þó svo það mættu nú hafa fleiri mætt. Föstudag fékk ég aðeins að anda en svo á laugardagsmorgun fórum við aftur af stað yngrikerlurnar hér á Bakkanum og stóðum í kaffibrasi fyrir hönd Gufanna niðrí í gömlu Kaupfélagshúsum í tilefni Pourquoi pas? sýningunar. Það er hægt að lesa um ævintýri okkar hér.

Konráð bróðir hefur svo boðað komu sína á sunnudaginn í húsmennsku og hlakka ég mikið til að fá hann því hann á að gera allt sem ekki hefur verið tími til að komast yfir eins og að ormahreinsa, marka og bólusetja lömbin, bólusetja rollurnar, moka út úr hlöðunni og endurraða fyrir sumarið þar, stinga út úr fjárhúsunum, girða engjarnar, undirbúa fyrir sauðburð, gera klárt gestaherberið (svo hann geti nú sofið einhversstaðar)keyra skít, moka upp úr skurðum, rýja og svo mætti lengi telja. Sem sagt nóg af verkefnum á Ferjubakka.

Binni fékk viðurkenningu frá L.s.s á sumardaginn fyrsta fyrir vasklega framgöngu hér 31 mars sl. þegar kviknaði í. Hann fékk flott verðlaunaskjal, Mp3 spilara og svo reykskynjara. Bjarni slökkviliðsstjóri kom og færði honum það sjálfur og var tekin mynd af þeim kumpánum og amman skellti þessu að sjálfsögðu í fréttirnar. Við erum svakalega stolt af honum og er hann sjálfur að jafna sig eftir þetta allt saman.

Svo eiga sæðingarnir mínir að byrja að bera nú um mánaðarmótin og verða þær örugglega frekar snemma í því, því það er spáð rigningu út vikuna. Það verður skemmtilegt og hlakka ég til að fá vorið á fullt í húsin. Talandi um vorið þá heyrði ég í fyrsta skipti í hrossagauknum í dag nú á ég bara eftir að heyra í lóunni en ég veit að hún er komin því Binni sá hana út á túni í fyrradag, og krían er komin niðrí Höfða ég sá hana þar í morgun.

Hef þetta ekki lengra í bili
þar til næst....
Lifið heil.