Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Taka tvö

Var byrjuð á djúsi pistli í morgun um það hvað ég væri löt þessa dagana þegar ég hreinlega gafst upp vegna leti og reif mig upp á rassgatinu og henti mér í fjárhúsin því ekki þýðir neitt að sitja inní bæ og vorkenna sjálfum sér þegar gibburnar eiga eftir að fá töðuna sína.
En helst er það að frétta að óformlegur stjórnarfundur var í gærkvöldi þar sem fráfarandi formaður og verkefnastjóri Lifandi Landbúnaðar komu okkur í nýju stjórninni inn í verkin. Var mér treyst fyrir því að leiða stjórnina og var ég einróma kosin formaður og fannst mér mikill heiður að því. Bíða okkar ófá verkefni til að geta haldið áfram þessari för með kyndil kvenna í dreifbýli, en get ég ekki sagt annað en okkur hlakkar til að takast á við þetta allt saman og vonandi verður jafn gaman hjá okkur í vor og var síðasta vor í námskeiðahaldi útum allt land. Hvet ég því allar konur í dreifbýli sem vilja mennta sig sér að kostnaðarlausu og taka þátt í lifandi félagsskap sem hefur það að markmiði að styrkja konur á allan hátt að hafa samband við mig.

Meðan ég var á þessum fundi þá átti ég að vera stödd annarsstaðar á fundi en ég gat nú reddað því og sendi Sveininn í staðin. Var sá fundur í grunnskólanum í Borgarnesi og fjallaði hann um verðskrá Tómstundaskólans. En mikil óánægja hefur skapast meðal okkar sem búum í dreifbýlinu vegna þess að Borgarbyggð neitar að hafa tvöfaldan skólabíl útí sveitirnar sem þýðir það að börn þurfa að bíða eftir skólabílnum því ekki eru allir búnir á sama tíma og hefur það verið leyst með því að hafa starfrækt skólaskjól (hvað sem þeir halda að þeir spari með því?) en nú í haust voru þær breytingar gerðar að skjólið var aflagt og Tómstundaskóli starfræktur í staðinn. Ekki voru þær breytingar kynntar fyrir foreldrum og ákvað bæjarráð í óþökk okkar að rukka fyrir bið barnanna þar. Bið sem þeir skikka börnin í. Þannig að við foreldrar í dreifbýli erum neydd til að láta börnin okkar bíða og borga fyrir það í þokkabót! Svo fyrir utan þetta allt fáum við ekki skólaakstur fyrir son okkar þannig við þurfum að keyra hann og sækja sjálf og fáum ekki einu sinni styrk til þess hvað þá meira. Mikið óréttlæti sem dreifbýlisbúar þurfa að búa við. Ég neita því hinsvegar að láta bjóða mér það að vera sett í annan flokk fyrir það að búa í dreifbýlinu og hef ég því barist við bæjarráð núna síðastliðin tvö ár og hef ég þó fengið það í gegn að Binni fái að bíða eftir skóla í Tómstundaskólanum sem núna verð ég að borga fyrir eins og hinir dreifbýlisbúarnir sem hafa skólaakstur. En skólaakstur hef ég þó ekki enn fengið en ég skal fá hann þó svo það þýði það að ég verði að höfða einkamál gegn Borgarbyggð!
Það er nefnilega þannig að það sitja ekki allir við sama borð í þessu þjóðfélagi þó svo við viljum vart til þess hugsa að annað slíkt óréttlæti þrífist sem beinist svona gegn grunnskólabörnum, þá er raunin önnur og ég vona að þessir firrtu bæjarráðsmenn sjái fljótlega hvað það er sem á að vera í forgangi í hverju samfélagi. 5 milljónir gátu þessir menn hent í golfvöll upp á Bifröst en tíma ekki að bjóða upp á skólaakstur fyrir grunnskólabörn, megi þeir allir skammast sín!

Sem sagt bæði gott og minna gott sem reið yfir okkur hér í gærkvöldi. En fleira er nú ekki að frétta í bili nema það að ég eignaðist lítinn frænda núna í lok október og er hann ótrúlega fallegur og var ekki frá því að frjósemisbjöllur í mér færu að klingja þegar ég heimsótti hann og mömmu hans nú um daginn, en ég verð að harka af mér því ekki er gert ráð fyrir frekari barneignum hér á bæ enda eigum við þrjú frábær eintök.
Lifið heil