Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

föstudagur, júní 27, 2003

Prump!

Ég nenni ekki að vera æðislega sniðug lengur. Hormónastarfsemin er á grilljón og skapferli mitt eftir því. Barnið æfir og æfir karate á rifbeinum mínum,síðu og þind, þá sérstaklega er ég sef. Ég blæs hraðar út en helíumdunkur blæs út blöðru og fæturnir á mér minna helst á ofsoðin karfa með eiturbólgusótt. Ég prumpa í tíma og ótíma og enginn leið á að stöðva það eða halda því inni á opinberumstöðum svo sem í búðinni. Eina ráðið er að lýta í kringum sig eins og einhver annar hafi gert það. Nefið á mér minnir helst á lélegan svertingja brandara (eða á mann sem býflugur hafa stungið í nefið og hann síðan hlaupið á vegg) og ég hef fleiri bólur en heill unglingaskóli til samans. Ef brjóstin á mér stækka mikið meira get ég vafið þeim utan um hálsinn á mér og notað sem trefil, kæmi sér vel í vetrarhörkum en varla í júlí. Á í vandræðum að velta mér um rúminu því annað brjóstið flækist þá yfirleitt fyrir og endar undir mér ég get ekki legið á hliðinni því ég hef ekkert pláss fyrir hendurnar því brjóstin liggja einhvern veginn út um allt. Og ég er bara hálfnuð, og eru ekki miklar líkur á að þetta skáni í seinni helmingnum. Fötin mín eru fjarlægur draumur í botni fataskápsins og ég tala nú ekki um að reyna finna nærföt sem passa, það er ósköp einfalt ég finn þau ekki. Kannski ég leyti á náðar seglagerðarinnar? Þannig að þið skiljið að ég nenni bara ekkert að skrifa í dag.
Lifið heil.

miðvikudagur, júní 25, 2003

Kalikúla.

Ég er döpur, svo döpur. Ég held nefnilega að ég hafi styggt elskulega vinkonu mína og sálfræðing með meiru. Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í þeim efnum nema þá helst að hún kallaði mig Ólöfu á pistlinum sínum. Mörgum kann að reka í roga stans og velta fyrir sér hvernig að ég geti fengið það út bara með því að reka augun í nafnið mitt. En þannig er mál með vexti að ég er bara aldrei kölluð Ólöf nema ég sé skömmuð. Ég hef velt þessu máli mikið fyrir mér og kemst bara að þeirri niður stöðu að ég verði einfaldlega að hringja í sálfræðinginn sjálfan og spyrja hvort ósiðsamleg hegðun mín (ef ég hef þá slíka hegðun) hafi sært hana eða hennar nánustu síðustu misseri. Það kæmi mér ekkert á óvart ég á slíkt til að bara böðla út úr mér einhverri vitleysu og bara fatta ekkert í minn haus fyrr en allt í einu að fólk fer að kalla mig Ólöfu. Annars hef ég nú ekki stórar áhyggjur Sigrún er ein þolinmóðasta manneskja sem ég þekki og er vön því að hlusta á vitleysuna í mér tímunum saman. Ég held að við séum rosalega skrítnar vinkonur við keppumst um að finna eitthvað sem við erum ósamála um hingað til hefur það bara ekki gengið, nema þá helst femínistinn. Við erum skuggalega mikið sammála. Flestum finnst það skrítið að við skulum vilja vera ósammála en við Sigrún erum nú einu sinni bara þannig gerðar að við elskum að rökræða hluti. Eiginlega elskum við að ræða bara alla hluti því báðar höfum við mikið að segja og höfum báðar sterkar skoðanir. Því taka samtöl okkar ekki einhverjar mínútur heldur skipta þau klukkustundum. En við erum bara alltaf sammála því fáum við kannski ekki oft hina hliðina á málunum, sérstaklega þar sem enginn nennir í kappræður við okkur því annar en við á erfitt með að komast að. Sigrún er líka ein gáfaðasta manneskja sem ég þekki, þá meina ég ekkert endilega í einhverjum fræðum, heldur hefur hún kynnt og myndað sér skoðanir á flestum málefnum sem skipta máli (að mínu mati) og er hún mikill fróðleiksbrunnur sem er gott að leita í. Ég vona bara að ég hafi eitthvað skilið eftir hjá henni þó væri ekki nema brot af því sem hún hefur gefið mér og hjálpað mér síðustu misseri. Ég held bara að hún geri sér enga grein fyrir þeim áhrifum sem hún hefur á fólk.

Anyhow blómin skína og sólin ylmar eins og alla aðra sumar daga og ég sit inni og pikka. Ég veit bara ekki hvað ég á að segja meira í dag því ekkert markvert hefur gerst. Ójú grillveislan ég gleymdi alveg að gera henni nógu góð skil í gær. En hún var frábær, góður matur og ég át á mig gat. Eva á alveg einstakan heiður skilið fyrir frábæra eldamennsku og grill snilld. Og Unnsteinn var liðtækur líka. Allir skemmtu sér konunglega og vil ég þakka þeim skötuhjúum að fyrir að fyrirgefa mér og mínum að troða okkur upp á þau.
Lifið heil.

þriðjudagur, júní 24, 2003

Smá pælingar.

Ég sit hérna og má vart mig hreyfa fyrir sársauka í baki og mjöðmum. Þannig er mál með vexti að ég fór í grill í gær til Unnsteins og Evu Rósar og grillaði þar næstum baki brotnu þ.e. það brotnaði næstum bakið á mér við það. Anyhow þá var ég að pæla hvernig stæði á því að manni þætti sumt fólk leiðinlegt? Og af hverju þykir öðru fólki maður sjálfur leiðinlegur? Ég meina af hverju stafar þetta. Hafa ekki allir upp á eitthvað að bjóða og þola ekki allir sjálfan sig? Mér t.d. finnst ég vera bara nokkuð skemmtileg og gáfuð og mörgum sviðum og mér finnst ég hafa margt að bjóða öðru fólki. En ég get enga að síður játað það að ég veit að það er til fólk sem finnst ég bara ekki skemmtileg. Og að sama skapi þá finnst mér sumt fólk ekki skemmtilegt og langar ekki að umgangast það þó svo að það hafi margar góðar gáfur. Ég vil taka það fram að ég er ekki með neinar ákveðnar manneskjur í huga þegar ég segi þetta, bara að pæla svona almennt. Mér finnst svo leiðinlegt að geta ekki verið nógu góð manneskja til þess að draga fólk ekki dilka og sjá alltaf það góða í öllum. En ég virðist bara ekki getað það og stend mig að því aftur og aftur að dæma fólk í laumi og sverja við sjálfan mig að ég ætla aldrei að tala við það eða þekkja. Mér finnst þetta ekki gott mál og held frekar að vandamálið sé hjá mér en ekki hinum "leiðinlega" einstakling. Stundum þá skammast ég mín líka fyrir að þekkja sumt fólk og vil helst ekki sjást tala við það úti á götu. Þetta er leiðinlegur og ljótur ávani og ég verð bara að reyna að venja mig af honum. Vissulega hefur sumt fólk ekkert að bjóða manni og maður á ekkert alltaf að vera í því að þiggja það er líka gott að gefa fólki eitthvað af sér.

Ég er búin að finna annað sem við Sigrún erum ekki sammála um og það eru blessuðu ástarsögurnar. Ég verð að þó að viðurkenna það að mér hefur aldrei þótt þær mjög skemmtilegar aflestrar en ég er samt ekki sammála því að þær séu eitthvað kvenfyrirlitningartól. Sigrún talar um að það sé verið að lítillækka konur með því að láta þær alltaf falla í stafi fyrir einhverri karlrembunni. Ég vil spyrja á móti ef sagan væri alveg eins nema að það væru lesbíur sem væru söguhetjurnar er þá sagan líka karlrembulegasinnuð og lítillækkandi fyrir konur? Þetta er ekki spurning um að bjarga "veikari" manneskjunni heldur finnst okkur öllum gott að láta "bjarga" okkur og hvíla í örmum annarra og finna öryggi. Börn hvíla svona í örmum foreldra sinna og er þá ekki eðlilegt að það fólk haldi því áfram er það eldist? Körlum finnst líka gott að láta konuna sína halda utan um sig. Þetta er líka ekki spurning að maður missi sjálfstæðið þó svo að maður verði ástfangin. Maður er alveg jafn sjálfstæður þó svo að maður finni til öryggis í örmum annarra. Verð ég þó fúslega að játa að þessar ástarsögur eru einstaklega væmnar og oft á tíðum illa skrifaðar og fullar af klisjum en að þær séu eitthvað skemmandi og niðrandi fyrir konur er ég bara alls ekki sammála.
Hef ég ekkert fleira að segja í dag.
Lifið heil.

mánudagur, júní 23, 2003

Umm, Umm, Umm

Ég bara get ekki annað sagt það er FRÁBÆRT veður úti. En samt sit ég hér inni við tengdamömmu-tölvuskriflið og rita þennan pistil. En um leið og ég er búin þá ætla ég að skella mér í stuttaranna og út í sólina og blíðuna. Ég get nú ekki sagt að það hafi margt á daga mína drifið en það er nú heldur betur búið að vera aksjónið hjá elsku vinkonu minni og nágrannagellu með meiru. Og hafði ég ábyggilega skotið úr mér krakkanum við allar þær uppákomur sem hún hefur þurft að þola síðustu daga. En ég ætla ekki að taka ánægjuna frá henni og segja frá því heldur ætla ég bara að beina forvitnum háttvirtum lesendum á að kíkja á hana og njóta frásagnar hæfileika hennar sjálfrar.

Ég komst að því um daginn að ég væri eins og heilög kýr. Ég bara get ekki tekið þátt í að tala illa um fólk og ég þoli bara ekki neikvæðni. Og ég sem er stundum svvvvoooooo neikvæð og gagnrýnin á fólk sjálf! Ég ræddi þetta við Dúnu í gær og hún hélt að þetta hefði eitthvað með meðgönguna að gera, ég vona bara að þetta sé breytingar á mér sjálfri batnandi manni er best að lifa er það ekki? En þá vantar mig bara festuna og ákveðinna til að segja " ég vil ekki taka þátt í að ræða veikleika annarra ég á nóg með mína eigin". Væri það nú ekki frábært ef maður gæti nú bara einbeitt sér að sjálfum sér í staðinn að vera alltaf að mikla sjálfan sig á kostnað annarra.? Annars finnst mér ég vera að breytast og þroskast einmitt svo mikið núna. Ég geri mér grein fyrir mörgu í mínu fari sem ég áttaði mig bara ekkert á áður. Væri til dæmis ekki frábært að geta beðið fólk bara afsökunar ef maður hefur verið að koma illa fram við það í stað þess að vera með einhverja stæla og slíkt. Og væri líka ekki frábært ef maður gæti bara verið maður sjálfur í stað þess að alltaf að vera með stæla og bjánaskap ef maður er "nervus" innan um fólk? Ég held, að ef fólk almennt fari að spá í eigin hegðun og reyna að uppræta gallana hjá sjálfu sér í stað þess að reyna alltaf að vera breyta öllum hinum, þá væri heimurinn miklu betri. Ég er til dæmis núna að reyna að bara lýta í eigin barm og reyna bara að gera mig hamingjusama og bara að reyna að gera mig jákvæða og fordómalausa og gá hvort slík hegðun smiti ekki út frá sér. Þannig að börnin mín og maðurinn minn verða jákvæð og hamingjusöm líka. Því þegar upp er staðið þá hefur maður engan nema sjálfan sig ég meina foreldrar,makar, og börn mans eru ekki sjálfgefin hlutur og maður getur aldrei átt annan einstakling. Ég held líka að maður kenni best með eigin hegðun. Mér finnst allt neikvætt í heiminum núna erfitt að horfa upp á. Öll þessi stríð og firring þetta er nú ekki sá staður sem ég vil að börnin mín taki við. Binni vildi í morgun fá byssu og sagðist bara verða að kaupa sér byssu. Ég reyndi að útskýra fyrir honum hvað það væri sem byssur gerðu við annað fólk þá sagðist hann bara ætla að skjóta ljóta karla. Mér féllust hendur hvernig gat ég útskýrt fyrir 3 ára að heimurinn sé ekki svona svartur og hvítur. Að ljótu karlarnir svo kallaðir séu kannski líka pabbar og að þeir voru einu sinni strákar eins og hann. Hvernig kennir maður barni að elska náungan ef heimurinn býður þeim upp á að þú megir bara elska vissa náunga en ekki alla? Af hverju er fólk til sem er svona óhamingjusamt að það þurfi að ráðast á aðra og drepa? Ég er líka ansi hrædd um að þetta fari ekki batnandi með fólk fyrir foreldra sem eignast börn upp á sport og láta svo ríkisreknar stofnanir um að ala þau upp. Ég sit hérna í tárum bara við að hugsa um hvað "góða" fólkið er að gera börnunum sínum og heiminum öllum. Af hverju er heimurinn ekki meira meðvitaður og þá sérstaklega vestrænt samfélag sem á nú að vera svo fullkomið?
Spáið í því!
Lifið heil.