Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

föstudagur, mars 20, 2009

Breytingar

Breytingar.
Hér er allt breytingum háð eins og á flestum stöðum nema kannski hjá mörgum stjórnmálaflokkum sem stilla upp sama liðinu sem sköpuðu leikreglurnar sem ollu bankahruninu. Aðrar breytingar eru að allir hitaþræðirnir eru komnir niður (sem eiga að fara niður í billi). Rollurnar eru komnar í hlöðuna eins og kom fram í síðasta pistli. Mamma og pabbi eru búin að setja sína síðustu gripi í sláturhús. Þar af leiðandi sjáum við um heyskap í sumar og er meira að segja búið að ráða vinnumann til að vera í heyskap því ég veit ekki hvenær sumarið verður hjá mér vinnulega séð. Okkur langar til að prófa að fá verktaka til að rúlla og pakka því okkar vélar eru ekki mjög afkastamiklar svo myglar of mikið af rúllunum. Það segja það allir sem hafa prófað að láta rúlla fyrir sig að það sé eina vitið. Olla er síðan að fara til Danmerkur á þriðjudaginn og mig dreymir um að klára stigann milli hæða á meðan hún er úti.

Þá er kominn nýr pistill
Sveinn

föstudagur, desember 19, 2008

Bachelor
Einhvern tíma hef ég horft að þá vitleysu. Var reyndar að því aðeins áðan. En er ekki eitthvað að við þessa hugmynd að láta fólk keppast um að verða ástfangið? Ef þetta er hugsað út frá karlinum þá er þetta dálítið cool. Hann fær 12 konur sem eiga að heilla hann upp úr skónum og að öllum líkindum búinn að sofa hjá flestum þeirra. Æ veit svo sem ekki hvað á að segja fleira um þetta, þetta er bara undarlegt fyrirkomulag, sem virðist vera vinsælt sjónvarpsefni en hvort þessi hjónabönd ganga veit ég ekki.
Önnur mál:
Kindurnar eru komnar í hlöðuna og er miklu betra að gefa þeim þar og ekkert vandamál með vatnið þar en ekki alveg fullkomið því þar er leiðindaraki sem þarf að losna við einhvern veginn. Æ kannski maður ætti að aulast til að taka eitthvað til fyrir jólin því morgundagurinn fer í laufabrauð og sunnudagurinn líklega í rollustúss.
Sveinn óskar öllum gleðilegra jóla.

mánudagur, október 13, 2008

ó ó óbyggðaferð....

Ég átti afmæli þann 9 okt. líkt og mörg ykkar vita. Í tilefni af aldri mínum (sem er hvorki hár né mikill) þá brunuðum við fjölskyldan í Miðbænum 'alla leið' upp í veiðihús og eyddum þar helginni. Þvílíkt ljúft sem það var að öllu leyti nema því eina að ég var komin með hálsbólgu og hita en lét það lítið stoppa mig. Á föstudagskvöldið kíktu Unnsteinninn, Evan hans spúsa og Strúnan sagnastúlka á okkur og borðuðu með okkur. Ég fékk frábæra bók frá þeim, þótt svo blóm og kransar hefðu verið afþakkaðir (þá vilja bara svo margir minnast mín), svo var spjallað lengi og vel. Heitur pottur er við húsið og var hann mikið notaður þá aðallega af börnunum svo var rennt fyrir laxi sem var reyndar engin (spurning hvort það hafi spillt fyrir veiðinni að Palli stóð og hennti grjóti útí ána ;)). Kannski vert að taka það fram að það var ekki reynt að veiða lax í heitapottinum.... heldur sko í ánni....

Þvottahúsgólf komið en svo þarf að setja ofan á það steinteppi og þá má fara að henta innréttingunum aftur upp og þá fæ ég kannski þvottavélina mína aftur jíbbí.
Er frekar hugmyndasnauð í dag (gerir kannski flensuskíturinn en ég steinligg enn með hita og beinverki) svo ég hef þetta ekki lengra í bili
Túttlíus
Lifið heil

miðvikudagur, september 24, 2008

Deó! Baulaðu Búkolla ef þú heyrir...

Í Ferjubakkafréttum er þetta helst; rigning, rigning, rigning og svo aðeins meiri rigning! Já það hefur rignt eldi og brennisteini síðustu daga allir flóar og engjar eru full af vatni og bæjarlækir orðnir að stórfljótum. Nú hefur meira að segja heyrst að eigi að fresta leitum því ekki þykir það á það reyndandi að reka féð yfir beljandi, mórauðar árnar. Sveinninn er í skýjunum yfir hugsanlegri frestun því þá getur hann steypt upp þvottarhúsgólfið ógurlega. Mér finnst nú ekkert liggja á því moldargólfið gefur svo skemmtilegan sjarma og á vel heima með baðstofustemmingunni sem hefur ríkt hér á efrihæðinni síðan við tæmdum kjallarann. Þetta er að sjálfsögðu sagt með vott af glotti og helling af kaldhæðni.

Belju skriflið er öll að koma til eftir kálfsfæðinguna í síðustu viku en hún hefur verið að æfa fimleika til að koma sér í form með tilheyrandi hoppum og stökkum þá sérstaklega þegar verið er að mjólka hana. En í morgun stóð hún bara þokkalega kjurr og gat þá húsfreyjan mjólkað án þess að eiga hættu að fá klaufarfar á kjammann.
Slátrun áætluð um helgina og getur maður þá farið að huga að sláturgerð og bjúgna undirbúningi. Svona eru hausthugsuninn sterk orðin í manni, það kemst ekki annað að en að draga björg í bú og nýta matinn. Sauðamessa framundan og skólaskemmtun hjá Binnanum spennandi, spennandi..
Ekkert fleira svo sem að frétta
Lifið heil

föstudagur, september 19, 2008

BBBBBRRRRRRRRrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr

Já ég hristist og skelf í háværu BBBBBBBBRRRRRRRRRRRRrrrrrrrrrr-i. Ástæðan? Jú það er verið að brjóta upp þvottahúsgólfið hjá mér, og ég er ekki frá því að ég sé að fá nettan höfuðverk í kaupbæti. Sveinninn og Unnsteinninn fara hamförum hér á neðri hæðinni annar með haka hinn með loftbor að vopni því ekki dugir minna við þvottahúsgólfið ógurlega sem er búið að margsteypa yfir í gegnum áratugina. Skal svo komið fyrir nýju klóakfrárennsli og tengibrunni fyrir utan og þá get ég hent nefklemmunni minni sem þarf að setja upp í vissum vindáttum vegna megnar klóakstybbu. Það styttist óðum í íbúðahæfa neðri hæð (og húsfreyjan stígur litla sigurdansinn sinn (sem er orðin næsta hálfur í tign og þokka vegna mikils missis af tígulegu rassgatinu og föngulegri margskiptu magavömbinni))

Heimsókn Danskra kvenna gekk bara bærilega. Lítið var sofið og enn minna drukkið af rauðvíni (því miður þá þarf gædin víst að vera nokkuð heill í hausnum og getur því ekki leyft sér taumlausa gleði (má víst ekki við því að deyfa þessar tvær heilasellur sem eru eftir (þá lömuðu og fötluðu)))en allt fór vel fram og þær stigu af landi brott mjög ánægðar. Ég tók hlutverk mitt sem alhliða umsjónarmanns mjög alvarlega meira segja svo að ég spilaði á gítarinn undir fjöldasöng (þið sem þekkið mig vitið að það geri ég ALDREI (hef aðeins einu sinni látið plata mig útí það og það gekk vægast sagt herfilega))en mín var svell köld að þessu sinni og tók Árna Jonsenin á það og söng bara hærra ef gripið var flatt eða vitlaust. Má kannski segja frá því að þegar gripið var í gítarinn þá voru allir búnir að drekka svo mikið ákavíti, rauðvín og gammeldansk að engum skipti það máli hvernig undirleikurinn var.

Ég hef svo varla stoppað síðan ég kom heim á síðasta laugardag því á sunnudagsmorguninn brunuðum við fjölskyldan upp í Brekku þar sem var réttað (kl. 11 en ekki klukkan 2 !!! HAHAHA) En við hjónin vorum skilamenn fyrir Svignaskarðsrétt og mættum því vel útbúin með stórkerru Sveinsins sem tekur alveg um 18 lömb!!! Við vorum ekkert stressuð því við vissum að hausafjöldi síðustu ára fór á bilinu 20 til 40. Svo fórum við að draga eða eiginlega þurftum við ekkert að draga því mest allt féð í réttinni var fé sem við áttum að taka. S.s. hausafjöldin var núna 140!! Samt var búið að keyra á bíl annað eins daginn áður upp í Skarð. Við vorum ansi sjokkeruð og sáum að við yrðum næstu daga að koma þessu uppeftir þannig Sveinninn hringdi í nágrannahróið sem á þennan fína fjárvagn og spurði hvort væri hægt að fá hann í láni. Jú jú á ég ekki bara að koma með hann, er með hann aftan í hvort sem er?? S.s. deginum bjargað granninn kom og keyrði á móti okkur 2 ferðir en við fórum 4. Þetta tók næstum allan daginn og rigndi svo brjálæðislega að ekki var ofsagt að maður var orðin ansi kaldur og hrakin undir það síðasta. Þá var nú gott að koma heim að Borgum og fá rjúkandi molasopa í funheitu eldhúsi hjá þeim gömlu. Og ekki skemmdi það að Birnan sjálf skellti í vöfflur og flödeskum með.

Mánudagur var svo réttardagur í Skarði og sem fyrr stóðum við Gufur vaktina í kofanum með rjúkandi á könnunni. Ég hafði skellt í skonsur og hafði hún Sigrún reddað áleggi og öllu hinu. Eva bakaði fjöll af sætabrauði og Anna smurði brauðið. Þar sem hinar skvísurnar eru náttúrulega stórbændur sem keyra á fjall (annað með okkur kotungana sem finnst ekki taka því að fara með þessa örfáu skjátur okkar út fyrir túnbleðilinn) þá stóð ég inní kofa en þær drógu sitt fé. Reyndar þegar mest var þá komu þær einsog englar og redduðu mér alveg. Fór allt friðsamlega fram og var talið að væri um 500 fleiri rollur en vanalega því heimtur væru góðar. Mánudagskvöld var svo smalað hér í Miðbænum og tekið inn í slagviðri. Drógu svo Ólinn og Sveinninn féð í sundur..

Því á þriðjudagsmorguninn kom Árni B. til að stiga lömbin. Það er skemmst frá því að segja að lambamatið hefur komið mun betur út áður og greinilegt að sumarbeitin þurfi einhverjar skoðunar við. Svo höfum við nú ákveðið hjónin að keyra á fjall næsta sumar veturgamalt en halda fullorðna fénu hér heima áfram.

Pallinn var orðin vekur á mánudagskvöld og var því heima mest alla vikuna. Af þeim sökum fór ég heldur seint í fjós á miðvikudag sem er ekki frásögufærandi nema hvað þegar ég kem í fjós þá er beljan komin af stað. Ég staldra því við og sé það er nú svolítið enn í hana svo ég skokka heim og hinkra í 40 mínútur. Binninn hleypur þá út fyrir mig og er þá komin kálfur. Svartur, stæðilegur og stór boli. Hefur hann hlotið nafnið Binni í höfuðið á "fóstra" sínum. Verður nú samt að viðurkennast að kálfurinn Binni er nokkuð tregur og hefur því gengið brösuglega að fá hann til að sjúga móður sína. En vonandi kemur það nú fljótlega.

Tengdapabbi afmæli í dag og er hann orðin 59 ára blessaður og finnst tengdamömmu hann bera aldurinn vel (sagt með skólastelpuflissi (þ.e hún flissar)) Okkur hinum finnst hann ekkert eldast þótt svo styttist óðum í sjötugsaldurinn.

Þannig að þið sjáið að það er ævinlega nóg að gera á Ferjubakka.
Ekki samt fleira af Ferjubakkaævintýrum í bili svo..
Lifið heil

P.s. Margrét systir gerði mig húkt á Fésbókinni svo ef þið eruð með svoleiðis getiði "addað" mér ....

mánudagur, september 01, 2008

Við byggjum saman bæ í sveit..

.
Fyrsta fjárstússið á þessu hausti lokið, en við rákum féð inn á tún í gærkveldi og gekk það vonum framar, enda þekkja skjáturnar nú vel hvert þær eru að fara og lalla sér nokkurn veginn sjálfar. Síðasta ferð upp á Hvamm var einnig í gær og eitraði ég fyrir haustið og vona þá að þurfa ekki að eitra eins mikið næsta vor. Sveinninn trillaði með slátturvélargarminn yfir nokkur leiði en annars þurfti ekki að slá enda spretta sama sem engin frá því síðast. Féð kemur ekkert sérstaklega vel úr engjunum í ár enda er það ljóst að það hólf er orðið of lítið fyrir þær og verða lömb og veturgamalt rekið á fjall næsta vor og svo krossaðir fingur í von að fá eitthvað af því niður að hausti.
Rafvirki sást hér á laugardag og er ég nú komin með nýja rafmagnstöflu niðri og ætlar nú pípari jafnvel að láta sjá sig um næstu helgi og færa rör og hitakúta. Sveinninn hefur alið þá von í brjósti mér að fá svefnherbergi fyrir jól með gólfhita og öllum græjum. Vona bara að það standist get ekki varist því að vera orðin nett þreytt á því að bera óhreinan þvott á milli hæða...ÚTI og bera hann svo til baka hreinan og eiga enga fataskápa. Svo nú bretta bara hjónin upp ermarnar og spýta í lófana og koma þessu frá sem fyrst.

Nú er Sveinninn orðin hestamaður (eða verður það fljótlega) en hann ætlar sjálfur í leitir (að ná í annarra manna fé og greiða í þokkabót fullt af peningum.. en þetta er allt önnur umræða og verður tekin síðar fyrir hér) fer hann með hest Binnans sem er nokkuð viljugur og lipur barnahestur og svo meri móður sinnar sem er frekjudolla á fjórum fótum (þ.e. hrossið ekki móðir hans). Nú þarf minn maður að fara að ná sér í smá hnakk sigg og því þarf hann að ríða út á hverju kvöldi fram að leitum. Verður gaman að fylgjast með gæðingatöktum Sveinsins og hrossanna.
Man ekki eftir fleiri fréttum í bili, svo þar til næst..
Lifið heil

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Tár í tómið


Ég sit hér og græt yfir hetjunum okkar sem eru að lenda í Reykjavík. Er mjög stolt af þeim á allan hátt og öllu þessu frábæra íþróttafólki sem barðist fyrir því að keppa fyrir Íslandshönd á ólimpíuleikum, á meðal annars eina frænku í sundliðinu. En ég get ekki varist því að hugsa um annað frábært íþróttafólk sem hefur kept á ólimpíuleikum fatlaðra. Kristín Rós sunddrottning hefur m.a. fengið 6 ólimpíugull, 2 silfurverðlaun og 4 brons. Mér finnst svolítið einsog þetta íþróttafólk gleymist svo oft og langar því að minnast þessa frábæra íþróttafólks um leið og ég græt yfir velgengi "strákanna minna".