Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

föstudagur, september 19, 2003

Leiðindi

Ég dey, ég dey, ég dey úr leiðindum!! Fékk samt heimsókn í gær dúllí dúl það var rosagaman. Annars var hróið ég bara eiginlega rúmföst Borgarnesferðin á Miðvikudaginn fór eitthvað vitlaust ofan í mig og endaði niðrí lífbeini sem var við það að þrýstast út með öllum flókanum og öllu saman oj. En ég er mikið betri í dag, legg meira segja kannski í það að vaska upp og sjæna svona aðeins í stofunni hjá mér svona ef ske kunni að einhver ræki inn nefið hér í kjallarann. Annars á tengdapabbi afmæli í dag hann er háaldraður karlinn, eða svona gott sem, 54 ára. Hann ber nú aldurinn vel og er ern ekki farinn að missa mikla sjón og ekki farinn að vaxa mikið um mitti, eins og eldri manna er siður, en hárið er farið að láta á sjá en það er allt í lagi hann bætir upp hármissinn á hausnum með hárvexti allsstaðar annars staðar á líkamanum.
Annars er nú ekki mikið að frétta úr sveitinni leitir og réttir afstaðnar með mismiklum gleði og fagnaðarlátum. Sumir drukku of mikið og var klappað um kinn, nef og munn í staðinn aðrir drukku minna en söfnuðu blöðrum og enn aðrir létu þetta allt í léttu rúmi liggja og fóru hvergi en sátu heima og sáu svo myndir úr réttunum í lok sjónvarpsfréttatímans eins og sannur Reykvíkingur, svona rétt til að rifja það upp að kindin er með fjórar fætur og loðin og svona. Annars sá erfinginn um að halda heiðri Ferjubakkafjölskyldunnar, hinnar neðri, uppi og mætti í allar réttir sem fyrir fundust á okkar svæði og keyrði meira að segja heim á fjárbílnum Fjára og borðaði hangikjöt og kartöflur að þjóðlegum sið. Var ekki laust við að drengurinn væri eilítið þreyttur eftir þessa þriggja daga törn af leitum og réttum.
Annars skellti Sveinn (verðandi)bóndi sér í leit með tengdaföður sínum og komst að því að þetta væri bara ágætis sport, sérstaklega var þó endirinn góður því við endalínuna stóð tengdó með bakkelsi og bjór og veifaði því sem gulrót fyrir sporreikula mennina.
Hef bara öngvar fleiri fregnir hér úr sveit.
Lifið heil.