Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

föstudagur, apríl 23, 2004

Góðan daginn gamla grá skóla hús.....

Miklar innri pælingar í gangi, eins og alltaf, er að spá í alla þessa náms möguleika. Núna er ég búin að finna eitt enn námið sem mig langar svo að skoða og það er búnámið á Hvanneyri. Þar er mikil líffræði (eins og ég þarf að taka ef ég ætla í grasalækningarnar) og svo bý ég nú í sveit og hyggst ekkert breyta því í komandi framtíð. Kannski ég kynni mér það eitthvað, plús þar er boðið upp á fjarnám (af því ég er nú svo langt í burtu) og svo er stutt að fara ef ég hef einhverjar spurningar. Jafnvel kannski sest ég bara alveg á skólabekk í haust og stunda bara fullt nám frá Hvanneyri....hver veit. Þetta er allt svo spennandi en jafnframt svo hræðilegt og ég er drullunerfus yfir þessu öllu held að ég geti þetta ekkert og allt þar fram eftir götunum. En, en, en góðir hálsar það þýðir ekkert að væla eins og gömul kerling upp í sveit (veit reyndar ekki til þess að þær væli neitt sérstaklega mikið, nema þá ég) eitthvað meira vil ég fá út úr lífinu það er alveg á hreinu.

Sigrún mín er endurheimt úr afdölum vestfjarðakjálkans og hittumst við aðeins í gær en hún hyggst ætla að koma í heimsókn í dag og er það vel því ég þarf mikið að tala um "kerlinga" hlutina okkar, sem engin kann að ræða nema ég og Sigrún. Já við Sveinn brugðum undir okkur betrifætinum (sem er sá í miðið hjá Sveini) og skelltum okkur í skóflustungu að nýu íbúðarhúsi sem á að rísa á Ferjubakka IV. Hefur það umrót fengið nafnið Krummahólar og munu því komandi ábúendur flytja úr Bakkahverfinu yfir í Hólahverfið. Þetta var svaka veisla og var vel veitt þar af góðu bakkelsi og fljótandi veigum með. Margt var um manninn en einstaka kona var þó þar líka. Þetta fór allt saman prúðmannlega fram og þökkum við hjónleysi hér með fyrir oss. Eftir svo þessa veislu drifum við okkur í aðra sem var haldin á Óðalsbýlinu Borgum. Þar stóð Brynjar nokkur Halldór (eldri) sveittur við eldamennsku og galdraði þar fram af sinni alkunnu eldamennskusnilld dýrindis læri með brúnuðum kartöflum og grænmeti, þessu var svo skolað niður með ekta blávatni úr landi Borga en er hver nú að verða seinastur að nota sér þann eðal drukk því plön eru um að leggja kaldavatns leiðslu þarna þá væntanlega ættað úr Borgarnesi. Fórum við þaðan svo södd og sæl og drifum okkur heim í ból.

Ég var búin að liggja í flensu síðan á mánudagskvöld en taldi mig nú orðna nokkuð góða (alla vega nógu góða) fyrir þessa reisu okkar í gær, en það hefur víst ekki verið því hún hefur tekið sig upp aftur og sit ég því hér fyrir framan tengdamömmutölfuskryflið með bréf í hvorri nös svo lyklaborðið klístrist ekki saman af hor. Svo gelti ég af hósta eins og gamall smalahundur og kveftárin leka úr augunum. En mér finnst þetta hið besta mál (fyrir náttúrulega utan að vera veik) því þetta er vorboði, því hvert einasta vor fæ ég kvef svo sumarið hlýtur bara að vera á næstu grösum.
Lifið heil.

mánudagur, apríl 19, 2004

Hummmmm

Hvað er það sem gerir mig að mér? Þegar stórt er spurt þá er nú oft vandkvæði með svörin. Ég fór á hundavaði yfir lífsferilinn, skóli, vinna, fyrsta ástin, hjartasár, börn, vonbrigði, geðveiki, maki, börn..... framtíðin er óljós. Maður man það sem var erfitt, maður man það sem var vont en síður allt það sem maður hló yfir og allir þeir sem maður hló með. Maður leggur ekki gleðina á minnið því hún mótar mann ekki.....eða hvað. Ef ég legði það í vana minn að muna aðeins það sem var gleðilegt (þegar ég fékk barnið á magan en ekki 10 tímanna sem tók að koma því út) og það sem var gott (þegar ég fór að leika mér í barbi 14 ára með æsku vinkonunni en ekki hvernig mér yrði strítt á því í skólanum daginn eftir) þá væri líf mitt gleðilegra og skemmtilegra og ég myndi varla koma að hindrunum því ég myndi aldrei eftir því daginn eftir. Hljómar einfallt spurning hvort það takist. Af hverju mótar einellti frá fornu fari, framkvæmt af óþroskuðum sálum........ af hverju mótar það mig ekki að ég hef kynnst ótal manneskjum sem hafa ekkert nema visku og alúð að bjóða mér. Af hverju mótar það mig frekar þegar ég lá heima með veröldina á öxlunum og bifaði ekki augnlokunum þó svo barnið stæði öskrandi yfir mér....... af hverju mótaði það mig ekki þegar ég lá með honum á gólfinu í þrjá tíma og púslaði og kubbaði með honum? Velur maður sér mótunarform eða er þetta manni eðlislægt? Er búið að ákveða hvað ég þoli og hvað ég þoli ekki..... og þarf sífellt að vera prófa það þol og strekkja það eins og gúmmíteygju þangað til hún brestur? Eða er bara hægt að hafa teygjuna venjulega og nóg að vita það að hún getur verið teygjanleg þegar á þarf að halda?
Ég er svo þakklát fyrir allt sem Guð hefur gefið mér gott og slæmt því ég held að allt sem ég sé, snerti og finn móti mig á einn eða annan veg.

Lífið hefur upp á svo margt að bjóða ekki bara fyrir mig heldur alla sem lifa því. Geðveikin er mér hindrun og framkvæmdarkraftur, hún er lífsorkan gömul og ný. Ég veit að það er bara sérstakt fólk sem fær hana, fólk eins og ég sem getur séð lengra, ekki bara litið á geðveikina sem einhverja veiki sem verður að meðhöndla sem slíka, heldur sem lífskraft og drifkraft og rót af svo mörgu. Ef þú höndlar geðveikina þína þá höndlar þú svo miklu miklu meira. Þú munt sjá annan heim ef þú hættir að lýta á hana sem veiki og lýtur á hana sem lífskraft sem þú færð ekki skilið. Hún mun berjast við þig ef þú reynir að kæfa hana en hún mun berjast með þér ef þú fagnar henni og býrð með henni. Hljóma eins og geðhvarfasjúklingur í maníu en ég er það ekki (í maníu) bara finn þetta með mér inn í mér.
Lifið heil.