Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Ekki að spyrja að því

Jú jú það er ekki að spyrja að því, bara brjálað að gera, eða eins brjálað og er hægt fyrir mig. Ég er núna nýbúin ljúka við að gera fyrirlestur um gerð viðskiptaáætlun sem ég ætla að flytja annað kvöld hjá konunum mínum í Lifandi Landbúnaði. Svo er svo gott veður að ég nenni alls ekki að vera inni og eyði því dögunum í göngutúra með Sigrúnu og í stússi útí fjárhúsum. Mokaði í morgun rúllu út svo ég þurfti ekki að gefa inni og voru skjáturnar mínar nú aldeilis ánægðar með það. Sveinn fór með páska lömbin í morgun í slátrun og fáum við þau vonandi á föstudag. Svo þvoði ég og bónaði bílinn seinnipartinn, ryksugaði og þreif hann að innan líka (þið sem þekkið bílinn minn vitið að það var komin tími á þetta!!) Palli og Arndís voru í sandkassanum að moka á meðan og röltu sér í sníkjuferð til ömmu og afa og komu að sjálfsögðu ekki tómhent til baka (til hvers að eiga ömmu og afa á hlaðinu ef ekki er hægt að fá góðgæti þar??!!). Svo er nú allt að gerast í kvennfélaginu okkar, við kusum um nafn á síðasta fundi og heitum nú Kvennfélagið (já með tveimur ennum) Gufan (tilvísun til Gufár) og ákváðum við líka að vera með sumardaginn fyrsta Bingó og erum við nú að safna vinningum og fleira sem þarf að gera í sambandi við það.

Svo styttist nú alltaf í Kanarí (trallalalala Kanarí,í,í,í) við þurfum víst að fjárfesta í ferðatöskum en við eigum bara ekkert slíkt enda höfum við ekki verið mikið að ferðast svo sem.
Verð að nefna að hún Margrét litla systir mín hefur ásamt unnusta sínum verið að sigra heiminn. Hún er nú komin í fjögra manna úrtak í söngdeild í sænskum háskóla og Gísli er líka gott sem kominn inn í tónsmíðadeild í sama skóla. Ég er svo montin af þeim, þið getið fylgst með ævintýrum systur minnar á heimsíðunni hennar, slóðin er hér til hliðar.

Afmæli var haldið í tvo daga hér um helgina. Á laugardag komu 8 vaskir sveinar hér í pitsu partý og ein dama (kærastan að sjálfsögðu) var Binninn á fullu að kontróla öllu þessu liði. Á sunnudag vaknaði svo afmælisbarnið með pakka tilbúna frá foreldrum sínum, bróður á Akureyris og ömmu og afa á Mývatni og var hann heldur en ekki ánægður með herlegheitin (var hann fyrr í vikunni búinn að fá gjöfina frá systkinum sínum, gat í eyrað). Var svo afmæliskaffi þar sem langömmurnar og langafinn, ömmur og afar, Katla Rún og Valla komu með gjafir og hylltu barnið með söng og gjöfum. Var heldur en ekki glaður 7 ára drengur sem sofnaði á sunnudagskvöld, og ansi þreyttir foreldrar skriðu í sitt bæli stuttu seinna.

Jæja örugglega miklu fleira að frétta en ég nenni ekki meir í bili...
svo þar til næst..
Lifið heil.