Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Nú er sumar gleðjist gumar.....

Já sumarið er í höfn svo sannarlega, jafnvel fer að nálgast haustið. Mér finnst það nú ekki verra þar sem haustið er minn tími, bæði á ég afmæli að hausti og svo verður einhvern veginn allt svo hljótt, dimmt og rómantískt.
Get ég nú ekki sagt neinar stórar fréttir af mér og mínum, sumarið hefur gengið sinn vana gang með slætti, grilli, böggum og bjór :). En það hefur ekki verið eintóm gleði, margt hefur verið skeggrætt og jafnvel stöku tár runnið, sálartetrið oft verið betra en það er allt að jafna sig og allir að taka sína gleði á ný.

Það er nú alltaf spurning hvað maður á að segja á svona bloggi frammi fyrir alþjóð, ég fékk eina stór vinkonu mína frá Akureyri í heimsókn í sumar sem finnst ekkert persónulegt (þ.e fjölskylduhagir, sjúkdómar ofl. í þeim dúr) eiga heima á bloggi og að sjálfsögðu ekki níð um náungann. Ég get tekið að stórum hluta undir þetta sjónarmið hjá þessari góð vinkonu minni, hins vegar hef ég oft á tíðum talað um geðsjúkdóma hér inni út frá minni eigin reynslu. Ég tel það mikilvægt að geðsjúkdómar séu meira í umræðunni en raun ber vitni. Nú í vor lést ung kona, kona á mínum aldri, úr krabbameini. Hún bloggaði um reynslu sína alla alveg til dánardags. Mikil umræða skapaðist um þetta og margir sem ekki höfðu "vit á því" að láta skoða sig til tillits til þesskonar sjúkdóma fóru í skoðun eftir að hafa lesið um hennar reynslu.
Þetta finnst mér nefnilega svo mikilvægt að nota þennan frábæra miðil til þess að skapa umræðu. Og afþví að miðillinn er svona persónugerður verður oft umræðan að skapast út frá eigin reynslu.

Hinsvegar (og nú kem ég að viðkvæmum punkti) eru til fólk sem misnotar þennan miðil. Notar hann til að leggja aðra í einelti einsog mý-mörg dæmi úr grunn-og framhaldsskólum sýna. Eða notar hann til að rægja fólk í umhverfi sínu og skýlir sér á bak við að þetta sé þeirra vefsíða og þeir sem ekki vilja lesa þar sem þar stendur geti bara snautað "út".
Nú í sumar fór ungur maður í meiðyrðamál á hendur u.þ.b 70 manna og kvenna sem höfðu á bloggi sínu og opnum spjallrásum rægt hann og jafnvel hótað honum lífláti, sumt í krafti nafnleyndar netsins og sumt fyrir opnum tjöldum bloggsins. Ég bíð spennt eftir því hvað kemur út úr þessum dómi því þetta sýnir okkur að þessi miðill er jú fjölmiðill sem allir getað notað og lesið skoðanir annarra eða viðrað sínar eigin. Það má nefnilega ekki segja allt sem manni dettur í hug.

Ég mun mjög sennilega halda áfram að nota þessa litlu vefsíðu mína til að segja frá reynslu minni í lífinu hvort sem það er út frá sjúkdómi þeim sem hrjáir mig öðru hvoru eða hvort það sé um kindurnar mínar, karlinn og krakkana.
Ég segi bara eins og Ameríska sjónvarps-fólkið stei túndt því ég mun ábyggilega toppa mig með hverjum pistli :).

Lifið heil