Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

þriðjudagur, október 09, 2007

The answer my friend is blowing in the wind

Bætti við mig ári í morgun, alltaf er maður nú að græða. Var reyndar löngu vöknuð, búin að klæða börnin og á leið út um dyrnar þegar ég var mynnt á það hvaða dagur væri. Get nú ekki sagt að ég hafi elst mikið á þessu ári en hef ég örugglega bætt við þónokkuð af þekkingu í sarpinn. Þetta ár hefur verið einstaklega gott og get ég þakkað almættinu fyrir margt og mikið. Ber kannski helst að nefna að engin hefur dáið, slasast eða örkumlast á sál eða líkama í mínu ná umhverfi. Ég og Sveinn bættum við bústofninn okkar heilum 50 hausum og hefur það gengið vonum framar. Við Sveinn fórum saman til Kanarí og fagnaði Sveinn þar sínum þrítugasta vetri. Ég lagði af stað með nýtt kvennfélag sem ég tel að sé að blómstra og sé okkur sem þar störfum til sóma. Einnig var vetur tvö í Lifandi Landbúnaði og var hópurinn okkar mjög stór og skemmtilegur og voru námskeiðin okkur mjög góð og tel ég að allar höfum við lært heilmargt og skemmt okkur í leiðinni.
Sumarið var frábært og lýður mér seint úr minni, gott veður upp á hvern einasta dag og skemmtilegir vinir sem komu í heimsókn. Tíminn með Konráði bróður var einstaklega góður og endurnýuðum við gömul kynni þannig í dag tel ég okkur mun nánari.
Þannig að ég græt það ekkert að vera orðin 27 og tel ég öruggt að áður en ég veit af verð ég orðin 28 og mörg ævintýri munu gerast í millitíðinni.

Ég ætla svo að njóta dagsins með því að leggja mig vel og lengi (eitthvað sem ég leyfi mér ekki svo mikið af nú orðið) og svo ætla ég að fara í góðan göngutúr áður en ég næ í litlu grísina mína. Svein hef ég heima í allan dag því hann vaknaði ælandi í morgun (umm heppin ég ;)). Svo verður heitt á könnunni fyrir gesti og gangandi í kvöld ef einhver vill. Læt hér stjörnuspá afmælisbarnsins fylgja með svona í lokin og einnig talnaspeki mína, dæmi svo hver fyrir sig hvort þetta passi vel við mig.
Lifið heil

Líflínunúmerið þitt er 1
Fólk sem umgengst þig leitar eftir leiðsögn hjá þér. Vegna þessa lendir þú oft í forystuhlutverkinu. Forvitni og ákefð einkenna þig og þú ert ekki hrædd(ur) við nýjar hugmyndir og leiðir. Stundum finnst þér þú jafnvel vera svolítill brautryðjandi. Þú átt þér marga stóra drauma og þig langar til þess að skilja eitthvað einstakt eftir þig í þessum heimi.

Spádómsnúmerið þitt er 1
Nú er rétti tíminn til þess að byrja upp á nýtt. Það er kominn tími til að sleppa hendinni af fortíðinni og byrja upp á nýtt. Framtíðin er í þínum höndum núna. Ekki vera hrædd(ur) við að rækta sjálfstæði þitt og leyfa þér að upplifa fullt af nýjum hlutum á þessum tímapunkti í lífi þínu.


Vogir vekja oft rómantískar tilfinningar og þykja kynþokkafullar, enda klæða þær sig oft djarflega og tælandi. Einna mest áberandi í fari þeirra er þó hvað þær eru blátt áfram og óþvingaðar, enda er Vogin merki félagslegra samskipta. Þær eru gæddar miklum persónutöfrum en eru oft dular og vilja ekki bera vandamál sín á torg og þær eiga líka oft erfitt með að taka ákvarðanir. Engu að síður er þeim mikið í mun að ná markmiðum sínum, hvort sem það er félagslega eða í samböndum, t.d. hjónabandi. Vogin er í eðli sínu diplómatísk og mikill sáttasemjari og á auðvelt með að lægja öldur. Vogir hafa sterka réttlætiskennd, en þola illa háværar deilur og ósamlyndi af öllu tagi. Þær vilja mjög gjarnan fá að vita að þær séu mikils metnar og eiga bágt með að vera einar. Þess vegna velja þær sér oft störf, þar sem mannleg samskipti eru í fyrirrúmi, og Vogin nýtur sín einkar vel í opinberu starfi. Voginni hættir til að gera öðrum hærra undir höfði en sjálfri sér og mætti gjarnan tileinka sér meiri sjálfsþekkingu og ýtni, ekki síst ef hún ætlar að ná frægð og frama.