Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

mánudagur, október 15, 2007

Útrýmum sveitavargnum - til hamingju dreifbýliskonur

Að útrýma sveitavargnum virðist vera herferð sem þéttbýlisbúar á höfuðborgarsvæðinu ganga fyrir. Verst þykir mér þó að ráðamenn þjóðarinnar taka að nokkru leyti undir þennan fáránlega kyrjanda. Í dag er dagur dreifbýliskvenna um allan heim og í tilefni þess set ég þessar hjartfólgnu hugleiðingar mínar á blað. Ég hlustaði á hádegisfréttirnar nú á fimmtudag líkt og ég er vön á ríkisútvarpinu. Þar var frétt sem var unninn eftir viðtali við konu sem hafði átt sér stað fyrr um daginn á morgunvakt rásar 1. Þessi ágæta kona heitir Salvör Jónsdóttir og var hún að viðra skoðanir sínar á svo kallaðri búgarðabyggð sem er að spretta upp á mörgum stöðum á landinu. Hún segir orðrétt "að þó að þetta eigi að heita sjálfbært og eigandinn geti verið með nokkuð búfjárhald einsog hænur í bakgarðinum að þá er þetta afar kostnaðar samar einingar fyrir sveitafélögin það þarf að gera vegi og vera með skólaakstur, sorpmál eru einnig dýrari. Frárennslismál eru öll erfiðari og dýrari það þarf sérstakar rotþrær sem geta hreint og beint verið hættulegar. Einnig er þetta verra fyrir umhverfið því einkabíllinn er mun meira notaður þar sem almenningssamgöngur eru ekki fyrir hendi. Þessi byggð er niðurgreidd af íbúum þéttbýlisins og því þurfa sveitafélögin að opna augu almennings fyrir því að þetta sé kostnaðarsamt og eru þetta útvaldir einstaklingar sem kjósa slíka byggð." Einnig gagnrýnir hún að undir þessa byggð fari oft gott ræktunarland eða votlendi og séu hvort tveggja vægast sagt vafasamt. Reyndar segir hún að Íslendingar hafi talað landbúnaðinn niður í áratugi og því teljum við ræktunarland ekki mikils virði og er ég fyllilega sammála henni þar.

Ég er hinsvegar mjög ósammála henni hvað varðar hitt sem undan er farið. Ég tel einmitt ef við fáum þéttbýlisbúann út til okkar á "slétturnar" að þá kannski, bara kannski, verður það til þess að augu þeirra opnist hvað varðar landbúnaðinn og hvernig við þurfum að standa vörð um þá auðlind sem landbúnaður og Íslenskir bændur svo sannarlega eru. Við sem erum bændur og búum í dreifðu byggðum landsins við þekkjum þetta allt, við þurfum rotþró, við þurfum skólaakstur (þótt svo ekki allir njóti þess), við þurfum sjálf að hirða sorpið okkar og aka því í gáma sem eru staðsettir á víð og dreif, við búum oft á tíðum við lélegar samgöngur því það er dýrt og óhagkvæmt að hafa betri vegi til svo fárra, við búum líka við lélegt símasamband og þá tala ég ekki bara um GSM samband líka landlínusamband, við búum við oft á tíðum nær ekkert netsamband og við erum ekki mjög hagkvæm umhverfinu því jú við þurfum að nota einkabílinn ef við förum eitthvað.
Ábyggilega erum við baggi á sveitarfélögum okkar og þurfa þéttbýlisbúarnir að greiða með okkur.
Ég horfi hins vegar á þéttbýlisbúann sem hefur (alla vega í Reykjavík) almenningssamgöngutæki en ferðast bara samt um í einkabílnum sínum oft aleinn! Svo á hann kannski hesta í hesthúsi rétt fyrir utan bæinn þar sem hann þarf að fara daglega og sinna þeim, hvernig fer hann að því? Jú hann keyrir, oft á tíðum, aleinn upp í hesthúsin sín. Mjög algengt er að þetta séu stórir jeppar sem menga mjög mikið. Svo af því að það eru svo margir bílar í þéttbýlinu þá þarf náttúrulega að vera stærri og breiðari vegir.

Hér fyrir ekki svo mörgum árum voru það samgöngur sem réðu úrslitum hvort byggðir legðust af eður ei. Langt upp í dölum þar sem erfitt var að gera vegi lögðust bæir í eyði og ekki var búið þar meir. Í dag ráða samgöngur vissulega miklu en símasamband og netsamband ræður mun meiru. Þar sem ekkert gsm og netsamband er eru byggðir að leggjast af, svo einfalt er það! Ég bý 10 km frá þéttbýliskjarna míns sveitarfélags ég bý samt við vægast sagt mjög stopult netsamband þar sem vatn og vindur ræður úrslitum hvort ég geti komist á netið. Einnig er landlínan hér á bæina í kringum mig og einnig til mín mjög léleg. Ég heyri betur í nágrannanum með því að kalla útum gluggann á hann en að hringja þangað. Ég fékk bundið slitlag nú í sumar ekki alla leið heim en góðan part þó. Þessi vegkafli sem þurfti að uppbyggja alveg frá grunni er um 4 km. Það tók þá 9 mánuði að gera hann og enn eru engar stikur komnar og ekki er farið að sópa af mölina. Ég sæi þéttbýlisbúann láta bjóða sér þetta. Ástandið á Vest og austfjörðum er þó mun verra, ég sæi ef svona búgarðabyggð væri gerð á Vestfjörðum að þá væri það heil lyftistöng fyrir samfélagið, íbúarnir myndu þrýsta á úrræði og þar sem þetta eru jú oft fólk sem á peninga þá fengu þeir ábyggilega mun skjótari viðbrögð en margur annar.
Hluti að jöfnunarúrræðum á vegum kvótaskerðingar fór í það að byggja um net og GSM sambönd á mörgum stöðum. Ég spyr á að þurfa að skerða þorskkvóta til að fólk í dreifbýlinu fái að njóta þess sama og þéttbýlisbúinn? Er eðlilegt að í þéttbýlinu sé 21 öldin en í dreifbýlinu sé sumhvar rétt skriðið á 20 öldina?

Ég vona að ég fái viðbrögð frá ykkur sem kíkið hér inn því þetta er þarft umræðuefni nú á degi dreyfbýliskvenna sem og alla daga.
Lifið heil