Ítalía, októberfest og sjóndepurð
Fékk símtal í gær frá góð vinkonu minni og stéttsystur, sauðfjárbónda í kolbeinstaðahrepp. Hún sagði einfaldlega "hæ langar þig að koma með mér til Ítalíu?" og ég svaraði stutt og laggott "já takk!" Nú er eiginmaðurinn skúffaður og segist ætla á októberfest með frændanum og félaganum af næsta bæ svo ég geti ekki farið til Ítalíu. Ég hlæ bara og segi honum að við herðum bara sultarólina svolítið meira og förum hvort tveggja í sitt hvor lagi (stefnir í óefni í hjónabandinu, alltaf aðskilin??!!) Svo stefni ég á ráðstefnu og námsferð í nóvember til Danmerkur með kerlunum mínum í Lifandi landbúnaði líkt og fyrra svo nóg verður af ferðalögum. Kannski við fjölskyldan skellum okkur líka í smá rúnt innanlands í sumar með eðalhýsið í rassgatinu og eltum gula fíflið til að sleikja það af áfergju sem þekkist hvergi annarsstaðar en á Íslandi. Svona til að vera með í eyðslufylliríinu rétt áður því líkur með tilheyrandi þynnku. (Kannski er ég of sein og neyðist til að fara með fermingartjaldið upp á afrétt og grilla pulsur og fisk líkt og í fyrra !!)(Ahh mundi að ég eignaðist hústjald í fyrra 40 ára gamalt frá ömmu og afa! Það verður nóg pláss og ég þarf ekki að eyða nóttinni með tveggja ára fætur upp í mér og átta ára hendur í hárinu á mér! Frábært nú býð ég spennt eftir sumrinu)
Sveinninn heldur svo á morgun í höfuðstað til að láta laga sjónina sem hefur verið með verra móti síðustu 25 ár. Er því mikil tilhlökkun og spenningur fyrir því hjá öllum á heimilinu og sagði skottan "pabbi minn ætlar að fá ný augu hjá lækninum" þegar hún mætti í leikskólann í morgun. Það verður undarlegt að fá aldrei að sjá hann framar með gleraugu og er ég ekki frá því að ég muni sakna þeirra pínulítið enda finnst mér hann bera þau svo vel. Hann fær sér bara töff sólgleraugu í staðinn svo ég geti haldið áfram að falla í stafi yfir fegurð hans og myndugleika.
Sveinninn heldur svo á morgun í höfuðstað til að láta laga sjónina sem hefur verið með verra móti síðustu 25 ár. Er því mikil tilhlökkun og spenningur fyrir því hjá öllum á heimilinu og sagði skottan "pabbi minn ætlar að fá ný augu hjá lækninum" þegar hún mætti í leikskólann í morgun. Það verður undarlegt að fá aldrei að sjá hann framar með gleraugu og er ég ekki frá því að ég muni sakna þeirra pínulítið enda finnst mér hann bera þau svo vel. Hann fær sér bara töff sólgleraugu í staðinn svo ég geti haldið áfram að falla í stafi yfir fegurð hans og myndugleika.