Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

föstudagur, janúar 25, 2008

Alvöru vetur

Já það er brostið á með alvöru vetri. Enda bóndadagur í dag og þorri hefst. Hann hefur nú gjarnan komið með hvelli og sýnt klærnar og verið óblíður bændum og búaliði jafnt sem öðrum. Binninn hefur verið tvo daga heima í þessari viku vegna ófærðar og óveðurs nú í dag og svo á þriðjudag vegna hvassviðris og ófærðar. Skólunum hér í héraðinu var lokað og Sveinninn kemst heldur ekki lönd eða strönd þrátt fyrir staðfastan vilja. Meira að segja traktorinn fer ekki langt því þrátt fyrir að hann komist áfram í gegnum skaflanna sem hlaðast hafa upp á vegina þá er svo blint að ekki sér útúr augum. Ég er ekki bjartsýn á að ég komist á fund Lifandi landbúnaðar sem er á dagskrá á morgun í Skagafirði ef ekki fer að stytta upp og verða skaplegra svo þeir geti rutt þjóðveginn. Ég er annars ekkert ósátt við veðrið mér finnst ágætt að veðrið hæfi árstíðinni en ég gat ekki annað en verið örlítið ósátt í morgun þar sem faðir minn blessaður komst ekki suður til Reykjavíkur í aðgerð sem er honum nauðsynleg. Við fjölskyldan vonum þó að rofi til svo karlinn komist leiðar sinnar en þau mamma bíða í vari í Borgarnesi. Frá Borgum héldu þau snemma í morgun og voru 50 mínútur niðrí nes, leið sem tekur vanalega 10 mínútur. Ég vildi að þau fengju Björgunarsveitina til að skutla sér suður en pabbi minn, ljúflingurinn sem hann er, fannst það nú of mikið fyrir einn karlfusk á leið í höfuðstað, þótt svo sú ferð væri honum lífsnauðsyn. Svo var nú það.

Við höldum okkur bara innan dyra og lærum í skólabókum Binnans (sem er orðin svo flinkur að lesa að hann les heilu bækurnar og þarf að taka 3-4 bækur heim í hvern skammt) Dísin mín sprangar um á náttkjólnum og heimtar kakó þar sem það er lífsnauðsyn í vondu veðri. Pallinn er enn með flensuskít og sefur (sem betur fer) á sínu græna. Svo blótum við Þorra í kvöld hjónin einsog við höfum gert frá upphafi okkar samvista og fögnum um leið sambandi okkar sem hefur varað (reyndar frá því í gær) í heil 6 ár. Þorrinn verður blótaður á hefðbundinn hátt í Valfelli með brennivíni og hákarl (sem ég læt hvort tveggja vera) hrútspungum og sultuðum sviðum (gall súrum og góðum, namm, namm) og öðrum hefðbundnum mat ásamt einhverju nútíma gúmmulaði ætlað matvöndum unglingum sem halda þorrablót séu einungis haldin Bakkusi til dýrðar. Vitlaus guð og röng heimsálfa!

Ég vona nú að þið hafið það öll gott í vonda veðrinu og haldið ykkur heima og drekkið kakó (skylda í vondum veðrum muniði!) og verið góð við hvert annað. Nóg komið af Ferjubakka fréttum í bili
Lifið heil

P.s. í þessum töluðu orðum vindur sér inn alsnjóugur maður og tilkynnir för sína til vinnu. Hvái ég en hann er staðfastur og segir að ekki sé hægt að vera þekktur fyrir annað en að fara til vinnu ef maður á að fara á þorrablót um kvöldið. Skynsemi mín segir mér annað en ég get svo sem ekki ákveðið fyrir aðra.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Þjóðmála-blogg

Já ég hef ákveðið að stofna nýtt blogg þar sem ég mun tuða um þjóðmál, pólitík og annað slík. Hér mun ég áfram hafa persónulegarfréttir af mér og mínum. Nýja bloggið er Bóndinn tjékk it out.
Lifið heil