Fótsporin mín

Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá.

laugardagur, maí 07, 2005

Samgöngur
Í þessum pistlum hefur oft verið talað um samgöngumál. Hef komist að þeirri augljósu staðreynd að menn hugsa þar mest um sjálfan sig eða það sem stendur þeim næst. Mér finnst til dæmis rugl að veita miklu fé til Reykjavíkur þar sem allar götur eru malbikaðar á meðan hér eru malarvegir sem eru stundum illfærir vegna drullu. Aftur á móti eru margfald fleiri sem nota vegina í rvk en t.d okkar ferjubakkaveg. Forgangsatriði ætti að vera að gera hringveginn malbikaðan og losna við einbreiðar brýr. Á meðan ástand tengivega og þjóðvegarins er ekki betra en það er þá finnst mér forhert heimska að ætla að fara gera hálendisvegi eða sundabraut. Hef svo sem ekkert á móti sundabraut en þá á að gera það í einkaframkvæmd eins og var gert með hvalfjarðargöngin.

Hef verið að velta því fyrir mér hvort það væri einhver grundvölur fyrir bændur að byggja skítatanka sem eru nálægt eða alveg við túnin og fá síðan verktaka til að keyra í þá og keyra svo sjálfir úr þeim á túnin. Í okkar tilfelli þá er það einn ferð í staðinn fyrir 3. Túnin hér þola ekki svona stóra tanka og er þetta því ágætt lausn að mínu mati.

Held að ég þurfi ekki að tjá mig meira núna og ég segi bless.

Smá viðbót
Mér finnst að fólk í rvk ætti að nota reiðhjól og strætó meira til að minnka mengun og til að spara (eins og Konráð). Húrra fyrir honum.

föstudagur, maí 06, 2005

Góðan daginn
Hér er svo sem lítið að frétta. Olla má ekkert gera og þarf að sitja og liggja allan daginn og lesa. Arndís er með kvef eins og ég. Í fyrradag þá girti ég garðinn af svo hún gæti verið út í garði. Lenti reyndar í smá óhappi við það. Var að reka niður staura og hafði engan til að halda þeim. Ég gerði tilraun með það að standa með netið í klofinu og styðja mig við það því ég hélt við staurinn með löppinni. Netið held mér náttúrlega ekki og ég missi jafnvægið og dett út úr garðinum og næ að hanga á gaddavír til að detta ekki niður brekkuna og niður á tún til Summa. Það hefði verið fyndið að geta séð þetta. Við Binni erum að bíða eftir að Arndís vakni til að geta sett hana upp og farið í Borgarnes. Ég fór nokkrar ferðir með skít í gær en barkinn stíflaðist og svo kom fjósatími og þá þurfti ég að fara passa Arndísi. Þau í Ráðagerði komu í heimsókn í gær, allir nema Unnsteinn, veit ekki hvort hann er en að jafna sig eftir tapið hjá Chelsea í meistara-deildinni. Við settum niður kartöflur í gær við Binni með aðstoð frá mömmu (reyndar var Binni að sulla niður á sandi á meðan við mamma vorum að setja niður). Búið að vera hálfgerður frasi með lyfin sem Olla fær við þessum samdráttarverkjum sem sér ekki fyrir endann á.
Ætli sé ekki best að hætta þessu og hengja út á snúru til að gera eitthvað.
Bless og lifið í lukku en ekki í krukku.
Sveinn

þriðjudagur, maí 03, 2005

Halló
(Sveinn með skýrslu)
Nú er illt í efni Olla fékk þau fyrirmæli að hún mætti ekkert gera. Hún fór út á sjúkrahús á föstudag með samdráttarverki en var send heim aftur því það fannst ekkert athugavert. Það var góður hjartsláttur í barninu og fínar hreyfingar. Fórum síðan aftur úteftir á laugardagskvöld og varð Olla eftir útfrá og kom ekki heim fyrr en í gær. Arndís og Binni voru upp á Borgum á meðan. Tengdamamma bauðst til að þvo af Arndísi því eitthvað hafði það dregist hjá okkur. Ég ákvað að misnota það boð og tæmdi óhreina tauið hennar Arndísar. Svo fengum við allt nýþvegið og brotið saman til baka og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Hver segir svo að tengdamömmur séu leiðinlegar?
Eins og Olla var búinn að segja þá hef ég verið á fullu að keyra skít og svo um helgar uppfrá að reyna að klára gróðurhúsið (skýli). Það segir sig sjálft að það hefur róast mikið sú vinna.

Örfréttir
Sauðburður er hafinn, eitt lamb komið. Pabbi reif gaflinn af bílskúrnum í gær. Við erum að rembast eins og rjúpan við staurinn að spara til að eiga einhverja peninga til að kaupa húsið í haust eða þegar þau eru búinn að byggja mamma og pabbi. Þeir segja hjá vegagerðinni að þeir ætli að brjóta klettana hjá Ölvaldsstöðum og nota það efni til að byggja upp veginn. Það er alveg eins og ég myndi gera það, það hlaut að koma að því að við (ég og vegagerðin) værum sammála.

Ef ég hefði verið í ríkistjórn þá hefði ég ekki lækkað tekjuskatt. Mér finnst mikið gáfulegra að lækka frekar virðisaukaskatt á matvælum. Því hefur verið haldið fram að matvælaverð hér sé það hæst í heim og afhverju þá ekki að reyna að lækka það aðeins. Svo kaupa allir mat sama hvað þeir hafa í laun. Í næstu kosningum þá ætla ég að kjósa vinstri græna. Afhverju þeir voru með þessa afstöðu þegar var verið að lækka tekjuskattinn og svo finnst mér ríkistjórnin vera búinn að gera það margar vitleysur. Samfylkinguna kýs ég ekki. Missti alla virðingu fyrir Ingibjörgu þegar hún hætti sem borgarstóri og Össur er dálítið eins og gjammandi hundur.

Þetta er nóg í bili
Sæl að sinni.